Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar dottnir út og Friðrik hættir sem þjálfari
Miðvikudagur 28. mars 2018 kl. 21:44

Keflvíkingar dottnir út og Friðrik hættir sem þjálfari

Keflvíkingar náðu ekki að klára dæmið gegn Haukum í 8 liða úrslitum Domino’s deildarinnar í körfubolta þótt þeir voru miklu líklegri að vinna fimmta leikinn en lokakaflinn var ekki nógu góður og Haukar náðu að knýja fram sigur í blálokin. Keflvíkingar gátu jafnað með þriggja stiga körfu í síðustu sókninni en hún var ekki góð og heimamenn náðu boltanum og skoruðu síðustu körfu leiksins frá eigin vallarhelmingi. Lokatölur 72-66. Í lok leiksins greindi Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari liðsins frá því að hann væri hættur þjálfun og myndi því ekki halda áfram með liðið á næstu leiktíð.

Leikurinn var jafn allan tímann en Keflvíkingar voru þó alltaf skrefinu á undan eins og í undanförnum leikjum að undanskildum fyrri hálfleik í fyrsta leik liðanna og leiddu í hálfleik 33-38. Gríðarsterk vörn Keflvíkinganna eins og í síðustu leikjum var Haukum erfið og Keflvíkingar náðu mest 12 stiga forskoti undir lok þriðja leikhluta en heimamenn á ótrúlegan hátt náðu að skora tvær þriggja stiga körfur á síðustu mínútunni, komu þeim í betri mál fyrir lokaleikhlutanna og minnkuðu muninn í fimm stig 47-53.

Haukamenn náðu að klára dæmið í lokaleikhlutanum þó þeir hafi verið undir í baráttuni fyrstu þrjá leikhlutana. Keflvíkingar voru ekki alveg eins beittir og í fyrstu þremur leikhlutunum. Haukar náðu að komast yfir í blálokin og náðu sex stiga forystu á síðustu mínútunni en Ragnar Örn Bragason skoraði 3ja stiga körfu og Keflvíkingar fengu síðan boltann eftir tæknivíti á Finn Haukamann þegar 6 sekúndur voru eftir. En eins og í öðrum leiknum tókst þeim ekki einu sinni að koma skoti á körfuna og Haukamenn hirtu boltann og Paul Jones stráði salt í sár bítlabæjarliðsins með körfu eins og í öðru leiknum frá eigin vallarhelmingi og innsiglaði sigur heimamanna 72-66.

Hörður Axel skoraði 16 stig og og Christian Jones var með 15 stig og 14 fráköst og Guðmundur Jónsson var með enn eina frábæru frammistöðu með 14 stig. Mjög góð frammistaða Keflvíkinga sem voru í 8. sæti í deildinni gegn deildarmeisturunum.

„Við gerðum óþarfa mistök á smá kafla í þriðja leikhluta sem hleypti Haukum inn í leikinn. Þeir náðu góðu áhlaupi í lokin en við áttu að gera betur. Þó við höfum tapað þessu leik þá tel ég að við séum eitt af fjórum bestu liðum landsins,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflvíkinga og sagði í viðtali við Stöð2 sport í leikslok að þetta væri hans síðasti leikur sem þjálfari.

Haukar-Keflavík 72-66 (22-18, 11-20, 14-15, 25-13)
Haukar: Kári Jónsson 21/8 fráköst/5 stoðsendingar, Paul Anthony Jones III 17/10 fráköst, Breki Gylfason 9, Finnur Atli Magnússon 8/10 fráköst, Emil Barja 7/4 fráköst, Haukur Óskarsson 5, Hjálmar Stefánsson 5/8 fráköst, Arnór Bjarki Ívarsson 0, Óskar Már Óskarsson 0, Kristján Leifur Sverrisson 0/6 fráköst, Alex Rafn Guðlaugsson 0, Hilmar Pétursson 0.
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Christian Dion Jones 15/14 fráköst, Guðmundur Jónsson 14, Magnús Már Traustason 8/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6, Dominique Elliott 4, Reggie Dupree 3, Andri Daníelsson 0, Daði Lár Jónsson 0, Andrés Kristleifsson 0, Ágúst Orrason 0, Davíð Páll Hermannsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024