Keflvíkingar burstuðu Hauka
Carmen með 50 stig í sigri Njarðvíkinga - Grindvíkingar töpuðu heima
Topplið Keflvíkinga átti ekki í teljandi vandræðum með Hauka á útivelli í Domino's deild kvenna í körfubolta, þegar liðin áttust við í gær í tíundu umferð deildarinnar. Munurinn varð á endanum 30 stig, 46:76 lokatölur. Sigurinn var aldrei í hættu en staðan var þegar orðin 17:39 í hálfleik Keflvíkingum í vil. Emelía Ósk Gunnarsdóttir fór fyrir Keflvíkingum með 17 stig og 25 framlagsstig en hún stal sjö boltum í leiknum og hitti afar vel. Keflvíkingar hafa tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar á Snæfell og Skallagrím.
Carmen Tyson-Thomas átti enn einn stórleikinn fyrir Njarðvík þegar nýliðarnir lönduðu sigri gegn Stjörnunni í gærkvöldi. Carmen skoraði 50 stig í níu stiga útisigri en lokatölur urðu 74:83. Hún tók auk þess 18 fráköst og var að venju potturinn og pannan í leik Njarðvíkinga. Þær grænklæddu hafa nú 10 stig og sitja í fjórða sæti deildarinnar.
Grindvíkingar töpuðu á heimavelli sínum gegn frísku liði Skallagríms í gær. Gestirnir reyndust mun sterkari í síðari hálfleik og höfðu 61:72 sigur. Ashley Grimes skoraði 33 stig fyrir heimakonur og reif niður 14 fráköst. María Ben Erlingsdóttir skoraði svo 9 stig og tók 13 fráköst fyrir Grindvíkinga. Grindvíkingar verma botnsætið í deildinni með fjögur stig.