Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 31. október 2002 kl. 21:20

Keflvíkingar burstuðu Hamar

Keflvíkingar gerðu góða ferð til Hveragerðis í kvöld þegar þeir burstuðu heimamenn í Hamar, 137:83, í Intersport-deildinni í körfuknattleik. Keflvíkingar komu gríðarlega vel stemmdir til leiks og leiddu frá upphafi. Damon Johnson var stigahæstur í liði gestanna með 30 stig en Gunnar Einarsson átti einnig frábæran leik og setti niður 29 stig þar af 18 stig í fyrsta leikhluta. Annars var allt liðið að spila vel, liðið lék frábæra vörn og hitti vel (21:40 í þriggjastigskotum), eins og sést best á tölunum.

Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga var að vonum mjög ánægður eftir leikinn. "Við spiluðum geggjaðan leik í kvöld og strákarnir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna. Við spiluðum vel allan tímann bæði í sókn og vörn og það gerði útslagið", sagði Sigurður eftir leikinn.

Þeir skoruðu mest: Damon Johnson 30, Gunnar Einarsson 29, Guðjón Skúlason 26, Magnús Þór Gunnarsson 15 og Kevin Grandberg 10.

Þá ber að minnast á frábæra vörn Sverris Sverrissonar og Davíðs Þórs Jónssonar sem héldu erlenda leikmanninum í liði Hamars í aðeins 8 stigum sem verður að teljast frábært afrek þar sem hann hafði verið að skora grimmt fyrir þennan leik.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024