KEFLVÍKINGAR BESTIR
Keflvíkingar tóku Íslandsmeistaratitilinn af Njarðvíkingum í æsispennandi leik sl. fimmtudag.Hraði Keflvíkinga réði ferðinni og sköpuðu bakverðirnir Hjörtur og Falur mörg færi fyrir skyttur liðsins og ekki að því að spyrja, forystan var þeirra frá upphafi og staðan í hálfleik 49-40. Friðrik Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, blés lífi í sína menn í hálfleik og Teitur Örlygsson gaf þeim tóninn með glæsilegri þriggja stiga körfu strax í upphafi. Njarðvíkingar tóku við stjórninni með 13-2 spretti og komust yfir 51-53. Að loknu leikhléi Keflvíkinga tók Falur Harðarson leikinn gjörsamlega í sínar hendur og annaðhvort skoraði eða lék uppi félaga sína. Damon Johnson lokaði á gegnumbrot Brenton Birminghams hinum megin og skilað jafnframt sínu í sókninni og voru þessir tveir ábyrgir fyrir því að koma Keflavík í 79-58 og aðeins 5:19 til leiksloka. Njarðvíkingar kunna ekki að gefast upp og náðu muninum niður í 5 stig 85-80 á lokakaflanum. Lengra komust þeir ekki og voru sóknarfrákast Birgis Birgissonar ásamt tveimur vörðum skotum Gunnars Einarssonar síðustu naglarnir í kistuna 88-80. Allir leikmenn Keflavíkurliðsins áttu hlut að því að koma titlinum í hús en í síðasta hálfleik ársins báru þeir byrðarnar Falur, Damon, Gunnar og Hjörtur og brugðust hvergi þegar á reyndi.KeflavíkFalur Harðarson 29, Damon Johnson 22, Gunnar Einarsson 13, Hjörtur Harðarson 8, Birgir Birgisson 7, Fannar Ólafsson 6, Guðjón Skúlason 3NjarðvíkBrenton Birmingham 20, Friðrik Ragnarsson 18, Hermann Hauksson 16, Teitur Örlygsson 12, Friðrik Stefánsson 9, Páll Kristinsson 6 KEFLVÍKINGAR ÍSLANDSMEISTARAR 1999Stóð við stóru orðinSigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga stóð uppi sem sigurvegari að lokum, ekki óvanur því pilturinn. Hann lofaði Keflvíkingum titlinum og stóð við stóru orðin.„Leikurinn að mínu mati frábær skemmtun fyrir áhorfendur, jafn og spennandi allan tímann. Mér fannst liðsheild okkar virkilega sterk í þessari úrslitakeppni og reyndar í allan vetur.Í þessum síðast leik þá spiluðum við virkilega saman sem lið.“ Var það ákvörðun þín að láta sóknarleikinn í hendurnar á Fal og Damon en þeir báru sóknarleik liðsins upp í seinni hálfleik?„Ekki var það nú ákveðið heldur þróast leikir á alla vegu og þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem Falur spilar vel á úrslitastundu.“Hvers vegna beiðstu svona lengi með að láta Damon reyna sig við Brenton - einvígi sem margir höfðu beðið með eftirvæntingu?„Það að Damon gætti ekki Brenton meira í vörninni á sér sínar skýringar. Við spiluðum reyndar svæðisvörn megnið af leikjunum en einnig var Damon oft kominn snemma í villuvandræði og því ekki fýsilegur kostur að setja hann á Brenton sem keyrir mikið inn í vörnina.“Áttu von á óbreyttu liði Keflvíkinga á næsta tímabili?„Ég á von á því að Keflavíkurliðið verði svona að mestu óbreytt á næsta ári, en tæpast á ég von á að Damon leiki aftur hér á landi.“F fyrir frábærFalur Harðarson réði lögum og lofum á vellinum í seinni hálfleik og hreinlega bar uppi sóknarleik Keflvíkinga ásamt Damon Johnson en þeir tveir áttu þátt í hverri einni og einustu körfu Keflvíkinga í seinni hálfleik. Hann skoraði alls staðar af vellinum og hver glæsikarfan á fætur annarri dró máttinn úr Njarðvíkingum hægt og rólega þar til þeir áttu ekki lengur svör og sigurinn því Keflvíkinga.Var það ákvörðun þjálfarans að láta sóknarleikinn með þessum hætti í hendur ykkar Damons?„Nei, þetta þróaðist bara svona. Ég reyndi ekki mikið fyrstu fimm mínúturnar en síðan hrökk allt í gang.“Nú breyttu Njarðvíkingar um varnarmenn í gríð og erg án þess að hægja nokkuð á þig. Skipti það þig engu hver var varnarleikmaðurinn?„Sem betur fer skipti það ekki máli í þessum leik.“Efaðist þú einhvern tíma um að þið mynduð halda þetta út?„Aldrei. Ég vonaðist til að við myndum bæta við forskotið í seinni hálfleik og þrátt fyrir að Njarðvík næði að jafna hafði ég alltaf trú á að við ættum eina góða rispu eftir.“Þriggja stiga skotið ótrúlega, yfir hinn rúmlega 2 metra Friðrik Stefánsson, gott sem úti á miðjum velli. Sástu yfirleitt körfuna?„Jú, jú, annars hefði ég varla skotið. Biggi setti upp góða hindrun og ég hafði nægan tíma til að athafna mig og setja skotið ofaní.“Hvenær varst þú orðinn öruggur um sigur?„Í stöðunni 88-80 með tíu sekúndur eftir, ekki fyrr.“Á Falur Harðarson þennan titil?„Nei, þetta er liðsíþrótt, við urðum Íslandsmeistarar saman og töpuðum líka bikarúrslitaleiknum saman. Maður tekur engan einn fram yfir annan, við erum með frábæra leikmenn, þjálfara og stjórn og þegar allir leggjast á eitt er hægt að koma ýmsu í verk.“Verða þeir Falur Harðarson og Damon Johnson áfram með Keflavík næsta vetur?„Ég verð örugglega Keflvíkingur áfram en vinur minn Damon Johnson á það skilið að fá tækifæri í betri deild fyrir meiri peninga og vonandi tekst honum það þótt ég vildi glaður hafa hann hér áfram.“Gunnar mikilvægurGunnar Einarsson sérlega vel í úrslitaleiknum og var einn fjögurra leikmanna meistaranna sem ekki fékk hvíld síðustu 20 mínúturnar. Gunnar var út um allan völl og sá t.d.til þess að Njarðvíkingum auðnaðist ekki að minnka muninn á lokasekúndunum með því að verja tvívegis þriggja stiga skottilraunir Friðriks Ragnarssonar. „Damon tönglaðist á því að við yrðum að leika eins og um síðasta leikinn á ferlinum væri að ræða svo engin eftirsjá yrði í leikslok sama hver úrslitin yrðu. Við vissum að Njarðvíkingar mundu ná einum góðum spretti og þegar okkur tókst að hægja á þeim, þétta vörnina aftur, þá var ég ekki í vafa um að við myndum sigra. Damon sýndi það gegn Brenton í seinni hálfleik að hann getur leikið fantavörn og að hann er sá besti sem hefur komið hingað til lands og leikið körfuknattleik. Spennufallið í leikslok var gríðarlegt og sigurvíman sæt.Er sigurinn einhverjum ákveðnum frekar að þakka en öðrum?„Nei, alls ekki. Sigurinn er Keflvíkinga allra, liðsins, stjórnarinnar og stuðningsmannanna.“Brenton Birmingham var að vonum óánægður með að hafa tapað og tók á sig ábyrgðina þrátt fyrir að hafa skilað 20 stigum, 16 fráköstum og 9 stoðsendingum. „Ég klikkaði út mikilvægum skotum á krítískum augnablikum í seinni hálfleik. Annars verður að segja að betra liðið sigraði í kvöld eins og í seríunni allri, betra liðið vinnur. Þetta voru tvö bestu lið deildarinnar að kljást um titilinn í 5 leikja seríu, barist hverja mínútu fyrir hverjum bolta og synd að annað liðið þurfti að tapa. Keflvíkingar eiga hrós skilið, þeir eru með mjög gott lið og frábæran útlending í Damon Johnson.“Eiga körfuknattleiksunnendur von á að sjá Brenton Birmingham leika með Njarðvík á næsta tímabili?„Ég veit ekki hvort Njarðvíkingar hafa áhuga á þjónustu minni eftir þennan leik. Ég vildi gjarnan koma aftur og tel mig enn eiga ýmislegt ógert með Njarðvíkurliðinu.“Ljósmyndir úr úrslitaleiknumÞar sem stækka þurfti blaðið eftir að prentun á litsíðum hófst þá breyttist litmyndaopna úr úrslitaleiknum í tvær stakar síður í blaðinu. Vonum að það komi ekki að sök þó svo körfuboltaumfjöllun sé á þremur stöðum í blaðinu í dag.„Það kemur dagureftir þennan dag“ - segir Friðrik Rúnarsson þálfari NjarðvíkingaFriðrik Rúnarsson þálfari Njarðvíkinga óskaði Keflvíkingum til hamingju með titilinn og sagði jafnframt Njarðvíkinga geta borið höfuðið hátt. „Oddaleikurinn segir í raun allt sem þarf. Serían var jöfn og ljóst að leikið yrði til þrautar í þessum leik. Við hófum leikinn illa, hittum ekki úr sömu færum og Keflvíkingar voru að setja niður. Þannig komum við okkur í ákveðna krísu en í hálfleik sagði ég mínum mönnum að hafa minni áhyggjur af sóknarhlið leiksins og einbeita sér að vörninni. Það skilaði sér í afslappaðri sóknarleik og betri vörn og við jöfnuðum og komumst yfir. Þá kom að þætti Fals Harðar hann tók bara sjénsinn á að láta vaða á súðum í sókninni. Það gekk upp hjá honum og voru margar körfur hans ótrúlega góðar. Eftir stendur að það er sárt að annað liðið þurfi að tapa - en það kemur dagur eftir þennan dag.“