Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflvíkingar báru sigurorð af Tindastóli í úrslitakeppni Domino's karla
Dominykas Milka var bestur í liði Keflvíkinga í kvöld og gerði 33 stig. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 15. maí 2021 kl. 23:30

Keflvíkingar báru sigurorð af Tindastóli í úrslitakeppni Domino's karla

Keflvíkingar höfðu betur í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfuknattleik þegar Keflavík tók á móti Tindastóli í Blue-höllinni og var það fyrst og fremst varnarleikur Keflvíkinga sem skóp sigurinn, 79:71.

Fyrsti leikhluti var jafn og hvorugt lið á því að gefa neitt eftir. Stólarnir höfðu náð þriggja stiga forystu eftir átta mínútna (17:20) leik. Keflvíkingar skoruðu fimm næstu stig og komust því í 22:20 en Tindastóll jafnaði, 22:22 eftir fyrsta leikhluta.

Sama var upp á teningnum í byrjun annars leikhluta, allt í járnum, en þegar Stólarnir komust í 28:29 á 13. mínútu tók vörn Keflvíkinga við sér og lokaði algerlega á sókn Tindastóls. Keflvíkingar skoruðu næstu tíu stig en Stólarnir skoruðu ekki fyrr en á síðust sekúndu leikhlutans og staðan í hálfleik því 38:31 fyrir Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í þriðja leikhluta hélt Keflavík forystunni en Tindastóll saxaði þó jafnt og þétt á hana og náðu henni niður í þrjú stig fyrir þann fjórða.

Stólarnir byrjuðu fjórða leikhluta á að setja niður þriggja stiga körfu til að jafna leikinn en Dominykas Milka svaraði í sömu mynt og fékk vítakast að auki sem hann hitti úr. Hann bætti tveimur stigum við í næstu sókn og jók forystu Keflvíkinga í sex stig, 63:57. Keflvíkingar héldu forystunni út leikinn og varð hún mest í tólf stig. Sigur í fyrstu rimmu einvígisins en liðin mætast aftur á þriðjudag fyrir norðan.

Dominykas Milka var besti maður vallarins í kvöld með 33 stig og átta fráköst.

Frammistaða Keflvíkinga: Dominykas Milka 33/8 fráköst, Calvin Burks Jr. 20/9 fráköst, Deane Williams 15/13 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 8/6 fráköst/5 stoðsendingar, Reggie Dupree 3, Magnús Pétursson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Arnór Sveinsson 0, Valur Orri Valsson 0, Ágúst Orrason 0/5 fráköst.

Jóhann Páll, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir. Eins og myndirnar sýna var stemmningin góð á pöllunum og ekkert gefið eftir á vellinum.

Keflavík - Tindastóll (79:71) | Úrslitakeppni Domino's-deildar karla 15. maí 2021