Keflvíkingar að komast á skrið?
Keflvíkingar unnu annan leik sinn í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gær þegar þeir sigruðu Hauka á útivelli, 90:72. Staðan í hálfleik var 45:34 gestunum í hag. Fyrir fram var búist við spennandi leik en Keflvíkingar komu sterkir til leiks og eftir smá erfiðleika í byrjun tóku þeir að mynda forskot sem hélst til leiksloka. Damon Johnson var sterkur að vanda í liði gestanna og skoraði 20 stig, Kevin Grandberg setti niður 17 stig og greinilegt að hann er að koma sterkur inn eftir dapra byrjun og þá átti Jón N. Hafsteinsson mjög góðan leik bæði í vörn og sókn og skoraði 11 stig.Keflvíkingar hafa nú sigrað tvo leiki í röð í deildinni og þó svo þeir hafi ekki verið að spila neitt sérlega vel hafa sigrarnir verið nokkuð öryggir. Miklar breytingar hafa verið gerðar á liðinu milli leikja og menn eins og Jón N. Hafsteinsson, Magnús Þór Gunnarsson, Davíð Þór Jónsson og Falur Harðarson þurft að hvíla inn á milli. Hópurinn er sterkur og því er mikil barátta um að komast í 10 manna leikmannahópinn sem ætti að koma sér vel fyrir liðið. Má því búast við Keflvíkingum enn sterkari þegar líða tekur á tímabilið og menn fara að átta sig betur á sinni stöðu innan liðsins.