Keflvíkingar á toppnum eftir þriðja sigurinn í röð
Keflvíkingar tróna á toppi Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu en þeir unnu sinn stærsta sigur í langan tíma en þeir gjörsigruðu Aftureldingu 5-0 á Nettó-vellinum í Keflavík í gærkvöldi.
Adam Árni Róbertsson skoraði þrennu og raðaði mörkunum inn í fyrri hálfleik. Mörkin komu á 9., 32. og 44. mínútu. Davíð Snær Jóhannsson bætti fjórða markinu við á 49. mín. og bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson kom svo með fimmta markið á 58. mín. Frábær sigur hjá hinu unga Keflavíkurliði sem er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.
Keflvíkingar hafa skorað 10 mörk og aðeins fengið á sig tvö. Keflvískur leikmaður skoraði þrennu síðast árið 2013 en það var Hörður Sveinsson.
„Tilfinningin er ógeðslega góð. Ég er mjög ánægður. Það er bara geggjað að geta skorað og skora þrennu á heimavellinum. Ég hafði ekki hugmynd að það væri svona langt síðan. Ég er mjög ánægður,“ sagði Adam Árni í viðtali við fotbolta.net eftir leikinn.
Adam með þrjá bolta í tilefni dagsins. Mynd/Guðmundur Sigurðsson.