Keflavíkurstúlkur tryggðu sér oddaleik
Keflavíkurstúlkur tryggðu sér hreinan úrslitaleik gegn Stjörnunni eftir sigur í fjórða leik liðanna í Garðabæ í kvöld í Domino’s deildinni í körfubolta. Lokatölur 73-83 en sigur Keflvíkinga var sanngjarn og öruggur.
Stjarnan byrjaði betur og leiddi eftir fyrsta leikhluta með 4 stigum en Keflavík vann annan með tólf stigum og var því með sjö stiga forskot í hálfleik. Munurinn jókst og fór mest í 19 stig og þrátt fyrir áhlaup Stjörnunar þegar 90 sekúndur voru til leiksloka var sigur Keflavíkur aldrei í hættu.
Keflvíkingar hafa verið með meiri breidd í síðustu tveimur leikjum þar sem þær hafa sigrað. Brittany Dinkins átti enn einn stórleikinn, skoraði 39 stig og tók 11 fráköst og þegar hún skorar yfir þrjátíu stig er Keflavík erfitt viðureignar. Stjarnan er að vísu með svipaða stjörnu, Danielle V. Rodriguez, en hún skoraði 37 stig. Þær voru því með um helming stiga sinna. Þær eru báðar oft tvídekkaðar og því skiptir máli hvernig þær ná að nýta sér styrk annarra leikmanna. Það gæti ráðið úrslitum í fimmta leik liðanna. Sigurliðið mætir Valskonum í úrslitum.
Hann verður í Keflavík á miðvikdagskvöldið 17. apríl kl. 19.15.
Stjarnan-Keflavík 73-83 (21-17, 13-25, 12-22, 27-19)
Keflavík: Brittanny Dinkins 39/11 fráköst/6 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 14/7 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 10/6 fráköst, Erna Hákonardóttir 5, Birna Valgerður Benónýsdóttir 4, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4/8 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 3, María Jónsdóttir 0, Eydís Eva Þórisdóttir 0, Þóranna Kika Hodge-Carr 0, Irena Sól Jónsdóttir 0.
Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez 37/8 fráköst/6 stoðsendingar, Veronika Dzhikova 16/10 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 10/8 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 7/7 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 3/6 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 0, Linda Marín Kristjánsdóttir 0, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir 0, Alexandra Eva Sverrisdóttir 0, Aldís Erna Pálsdóttir 0, Sólveig Jónsdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0.