Keflavíkurstúlkur töpuðu í rokleik
„Það var erfitt að leika fótbolta í þessu fyrir stúlkurnar. Þessi leikur hefði átt að fara fram í Reykjaneshöllinni og ég skil ekki af hverju það var ekki gert. Ekki síst í ljósi þess að mönnum finnst í lagi að leikir í 1. deild karla fari fram í knattspyrnuhöllum,“ sagði Elvar Grétarson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í Pepsi deildinni. Keflavík tapaðí í kvöld 0:2 fyrir Aftureldingu/Fjölni og þjálfarinn var mjög ósáttur við þá ákvörðun að leika við þessar aðstlæður.
Hafi menn talið aðstæður erfiðar sl. mánudag hjá Keflavík og FH þá voru þær erfiðari í kvöld fyrir stúlkurnar sem margar hverjar eru mjög ungar. Hávaðarok úr suðri gerði það að verkum að fótboltinn var ekki á háu plani. Lítið um spil og mest allan tímann voru leikmenn í basli með að halda boltanum inni á vellinum.
Lið Keflavíkur er eins og fyrr segir mjög ungt en brasilíski miðvörðurinn Gabriela DeMelo sem kom til liðsins í vor er mjög góður leikmaður og að sögn Elvars án efa einn besti leikmaður deildarinnar. Hún var við nám í Tenesee háskólanum í Bandaríkjunum. Þá er væntanleg hin króatíska Marina Nesic en hún lék með HK/Víkingi í fyrra. Hún er væntanleg til Keflavíkur fyrir helgina,. Elvar segir hana gríðarlega mikinn liðsstyrk. „Ég horfði á hana vinna leik fyrir HK/Víking gegn Keflavík í fyrra. Þetta er leikmaður sem getur skipt sköpum fyrir svona ungt lið eins og okkar. Við gerum okkur vonir um að hún verði með okkur gegn KR á laugardaginn,“ sagði Elvar.
Hann sagði að liðið hafi ekki enn fengið þann liðsstyrk sem sé nauðsynlegur en enn sé von að sá þáttur lagist, bæði með þeirri króatísku og hugsanlega tveimur öðrum leikmönnum þegar líður á sumarið.
„Við verðum augljóslega í baráttunni í neðri helmingi deildarinnar og því verðum við að standa okkur í þeim leikjum. Ég er alls ekki svartsýnn þrátt fyrir tvö töp. Þessi leikur í kvöld er ekki marktækur. Hann gat farið hvernig sem var. Aðstæður voru þannig,“ sagði Elvar.
Eva Kristinsdóttir sækir að marki Aftureldingar/Fjölnis.
Elísabet Ester Sævarsdóttir, fyrirliði Keflavíkur með boltann í vörninni. Gabriela DeMelo er fyrir aftan hana í vörninni.
Það var hart barist á Sparisjóðsvellinum.
Það var ekki eins margt í stúkunni og hjá körlunum á mánudag en þó fleiri en sjást á þessari mynd.
Elvar Grétarsson, þjálfari Keflavíkur er með ungt lið. Hann segir að uppbygging sé hafin í Keflavík en þó sé von á liðsstyrk fljótlega.
xxx