Keflavíkurstúlkur þurfa ykkar aðstoð
- Grillin sett í gang
Keflavíkurstúlkur taka á móti Val í þriðja leik liðanna í 4-liða úrslitum Domino´s deildar kvenna í Toyotahöllinni þriðjudaginn 9. apríl. Nú er ekkert sem heitir og þurfa stúlkurnar allan þann stuðning sem mögulegur er. Nú viljum við Keflvíkingar sjá fullt hús! Sýnum stelpunum stuðning og mætum til að hvetja og hafa gaman. Grillin verða sett í gang um kl. 17.30 og því flott að fá sér hamborgara og meðlæti fyrir leik.
- ATH grillað verður við aðalinnganginn en ekki í VIP.
Allur sá fjöldi stuðningsmanna sem leit við í Toyotahöllinni um helgina til að hjálpa minnibolta stúlkna og 7. flokk karla lyfta Íslandsmeistaratitlum er beðinn að mæta á svæðið og rífa þakið af húsinu. Óumdeilt er að stuðningur áhorfenda virkar sem 6. maður og því mikilvægt að sem flestir láti sjá sig. Svo mikilvægur er stuðningurinn að aðstoðarþjálfarar kvennaliðsins, þær Erla Reynisdóttir og Marín Rós Karlsdóttir, hafa heitið því að komi 500 manns í húsið muni þær syngja Adele slagarann „someone like you“ til handa stuðningsmönnum í hálfleik. Sjón verður því klárlega sögu ríkari!
Látum okkur ekki vanta og styðjum stelpurnar til sigurs - ÁFRAM KEFLAVÍK, segir á heimasíðu Keflavíkur.