Keflavíkurstúlkur sigruðu Njarðvík í Lengjubikarnum
Keflvíkingar hafa misst mikið en ungar stúlkur stigu upp
Keflvíkingar tóku á móti grönnum sínum úr Njarðvík í Lengjubikarnum í gærkvöldi þar sem að heimakonur unnu öruggan sigur, 68-37.
Njarðvíkingar höfnuðu á dögunum boði um að leika í Domino´s deildinni eftir að KR sagði sæti sínu lausu en Njarðvíkingar voru aðeins einni sókn frá því að vinna sér inn sæti í deild þeirra bestu á síðasta tímabili eftir hörkuseríu gegn Stjörnunni sem fór í oddaleik.
Keflvíkingar mæta með mikið breytt lið frá síðasta tímabili og miðað við leik gærkvöldsins er ekki annað að sjá en að nýr þjálfari, Margrét Sturlaugsdóttir, sé með góðan efnivið í höndunum en það verða margar mínútur í boði fyrir ný andlit í vetur. Keflvíkingar hafa misst þær Ingunni Emblu Krístindardóttur (Grindavík), Hallveigu Jónsdóttur (Valur), Söru Hinriksdóttur (háskólanám í Bandaríkjunum) og Birnu Valgarðsdóttur (hætt) svo það má segja að algjör kynslóðaskipti verða hjá Keflvíkingum í vetur. Guðlaug Björt Júlíusdóttir hefur þó gengið til liðs við liðið frá Grindavík.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik þar sem aðeins munaði einu stigi á liðunum, en Njarðvíkingar voru 25-26 yfir. Heimakonur tóku öll völd í þeim síðari og lönduðu öruggum sigri 68-37 þar sem firnasterk vörn þeirra leyfði ekki nema 11 stig í öllum síðari hálfleiknum.
Atkvæðamestar hjá Keflavík voru þær Thelma Dís Ágústsdóttur (16 stig, 7 fráköst, 5 stolnir) og Emelía Ósk Gunnarsdóttir (15 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar). Hjá Njarðvíkurkonum var Hera Sóley Sölvadóttir stigahæst með 9 stig auk þess að taka 3 fráköst.
Domino´s deild kvenna verður flautuð á 14. október þegar Keflvíkingar sækja Valskonur heim á Hlíðarenda en Njarðvíkingar hefja leik í 1. deild kvenna þann 10. október þegar Breiðablik mætir í heimsókn í Ljónagryfjuna.
Sjá má viðtöl við bæði Margréti Sturlaugsdótttur, þjálfara Keflavíkur, og Friðrik Inga Rúnarsson, þjálfara Njarðvíkur, á karfan.is en það var Davíð Eldur Baldursson sem ræddi við þau eftir leikinn í gær.