Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurstúlkur sigruðu Njarðvík í Lengjubikarnum
Frá leiknum í gær - mynd: Davíð Eldur/karfan.is
Þriðjudagur 22. september 2015 kl. 16:18

Keflavíkurstúlkur sigruðu Njarðvík í Lengjubikarnum

Keflvíkingar hafa misst mikið en ungar stúlkur stigu upp

Keflvíkingar tóku á móti grönnum sínum úr Njarðvík í Lengjubikarnum í gærkvöldi þar sem að heimakonur unnu öruggan sigur, 68-37. 

Njarðvíkingar höfnuðu á dögunum boði um að leika í Domino´s deildinni eftir að KR sagði sæti sínu lausu en Njarðvíkingar voru aðeins einni sókn frá því að vinna sér inn sæti í deild þeirra bestu á síðasta tímabili eftir hörkuseríu gegn Stjörnunni sem fór í oddaleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar mæta með mikið breytt lið frá síðasta tímabili og miðað við leik gærkvöldsins er ekki annað að sjá en að nýr þjálfari, Margrét Sturlaugsdóttir, sé með góðan efnivið í höndunum en það verða margar mínútur í boði fyrir ný andlit í vetur. Keflvíkingar hafa misst þær Ingunni Emblu Krístindardóttur (Grindavík), Hallveigu Jónsdóttur (Valur), Söru Hinriksdóttur (háskólanám í Bandaríkjunum) og Birnu Valgarðsdóttur (hætt) svo það má segja að algjör kynslóðaskipti verða hjá Keflvíkingum í vetur. Guðlaug Björt Júlíusdóttir hefur þó gengið til liðs við liðið frá Grindavík.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik þar sem aðeins munaði einu stigi á liðunum, en Njarðvíkingar voru 25-26 yfir. Heimakonur tóku öll völd í þeim síðari og lönduðu öruggum sigri 68-37 þar sem firnasterk vörn þeirra leyfði ekki nema 11 stig í öllum síðari hálfleiknum.

Atkvæðamestar hjá Keflavík voru þær Thelma Dís Ágústsdóttur (16 stig, 7 fráköst, 5 stolnir) og Emelía Ósk Gunnarsdóttir (15 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar). Hjá Njarðvíkurkonum var Hera Sóley Sölvadóttir stigahæst með 9 stig auk þess að taka 3 fráköst.

Domino´s deild kvenna verður flautuð á 14. október þegar Keflvíkingar sækja Valskonur heim á Hlíðarenda en Njarðvíkingar hefja leik í 1. deild kvenna þann 10. október þegar Breiðablik mætir í heimsókn í Ljónagryfjuna.

Sjá má viðtöl við bæði Margréti Sturlaugsdótttur, þjálfara Keflavíkur, og Friðrik Inga Rúnarsson, þjálfara Njarðvíkur, á karfan.is en það var Davíð Eldur Baldursson sem ræddi við þau eftir leikinn í gær.