Keflavíkurstúlkur sigra í Grindavík.
Keflavíkurstúlkur unnu Grindavík í viðureign liðanna í 1. deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Lokatölur voru 75-107, en Keflavíkurstúlkur náðu afgerandi forystu í öðrum leikhluta.
Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, játaði fúslega að hans leikmenn hefðu mætt ofjarli sínum í kvöld. „Við héngum í þeim fram undir miðjan annan leikhluta, en þar sigu þær fram úr. Þær náðu öllum fráköstum og fengu að leika lausum hala í teignum.“ Pétur sá samt ýmislegt jákvætt í leiknum til dæmis í vörninni, auk þess sem liðið var að hitta mun betur utan af velli heldur en í síðustu leikjum.
Hjörtur Harðarson hjá Keflavík var að vonum ánægður með frammistöðu síns liðs. „Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en svo fór breiddin hjá okkur að skila sér og munurinn jókst bara upp frá því. Nú er liðið vonandi búið að finna sig eftir tvo tapleiki í röð um daginn og ef stelpurnar koma til leikja tilbúnar til að spila og leggja eitthvað á sig erum við ekki auðsigraðar.“
Stigahæstar Grindavíkur voru Sólveig Gunnlaugsdóttir (27 stig), Ólöf Pálsdóttir (15 stig) og Petrúnella Skúladóttir (14 stig). Hjá Keflavík voru Birna Valgarðsdóttir (27 stig) og Erla Þorsteindóttir (24 stig).
Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti með 8 stig ásamt ÍS, sem á leik til góða, en Grindavík er í neðsta sæti deildarinnar. Pétur Guðmundsson telur þó að hans lið hafi enn góðan möguleika á að ná einu af fjórum efstu sætunum og komast í úrslitakeppnina.