Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 15. nóvember 2003 kl. 19:58

Keflavíkurstúlkur rúlla yfir ÍR!

Keflavík vann öruggan sigur á ÍR í 1. deild kvenna í Seljaskóla í dag. Lokastaðan var 62-93 fyrir Keflavík eftir að þær höfðu leitt allan leikinn og haft yfir í hálfleik 35-52. Keflavík spiluðu mjög góða vörn og héldu góðri pressu á ÍR-inga ásamt því að þeim gekk afar vel í sókninni eins og tölurnar gefa til kynna.

„Við náðum að leysa 1-3-1 svæðisvörnina þeirra mjög vel og komum okkur þess vegna í góð skotfæri sem við nýttum ágætlega“, sagði Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur. Hann getur verið sáttur við umsnúninginn sem hefur orðið á liðinu síðustu vikurnar en nú er liðið í efsta sæti deildarinnar ásamt ÍS sem á þó leik gegn KR á mánudaginn til góða.

Stigahæst hjá Keflavík var Anna María Sveinsdóttir, en hún skoraði 21 stig, tók 15 fráköst og stal 5 boltum. Þar á eftir komu Rannveig Randversdóttir, með 16 stig, og Kristín Blöndal sem skoraði 14.

Eplunus Brooks bar lið ÍR á herðum sér og skoraði 30 stig og tók 19 fráköst.

Áberandi var í leiknum hvað ÍR keyrði mikið á sömu leikmönnunum á meðan enginn leikmaður Keflavíkur lék í meira en 26 mínútur. Þessi mikla breidd gefur Keflavík færi á að hvíla lykilmenn og leyfa ungu stelpunum í liðinu að spreyta sig.

Hér má sjá tölfræði úr leiknum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024