Keflavíkurstúlkur komnar á toppinn
Keflavík gerði góða ferða upp á Skaga í gær þegar þær sigruðu ÍA í 2:1 í 1. deild kvenna. Aníta Lind Daníelsdóttir kom Keflvíkingum yfir á 39. mínútu en ÍA var ekki lengi að jafna. Það gerði Bergdís Fanney Einarsdóttir fjórum mínútum síðar. Eftir klukkutíma leik skoraði Sveindís Jane Jónsdóttir og kom Keflavík aftur yfir. Mark Sveindísar reyndist vera sigurmarkið og Keflavík því með sterkan sigur á ÍA. Keflavík er komið með 9 stig eftir fjóra leiki og eru í efsta sæti ásamt HK/Víking sem á leik til góða.