Keflavíkurstúlkur Íslandsmeistarar í körfubolta
Keflavíkurstúlkur eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik eftir að hafa unnið Njarðvík 3-0 í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna. Keflavík sigraði leikinn í kvöld með 10 stigum, 61-51 í Toyota höllinni.
Leikurinn hafði byrjað rólega fyrstu tvær mínúturnar þegar Keflavíkurstúlkur settu í fimmta gír. Þær náðu 15 stiga forskoti á fimm mínútum en þegar 7 mínútur voru liðnar af leiknum höfðu Njarðvíkurstúlkur aðeins skorað 2 stig, staðan 17-2. Njarðvíkurstúlkur náðu þó að klóra aðeins í bakkann fyrir lok fyrsta fjórðungs og var staðan að honum loknum 19-8.
Njarðvík mætti mun sterkari í annan fjórðunginn og leit alltaf út fyrir að þær væru að fara jafna leikinn en Keflavíkurstúlkur náðu þó alltaf að halda sér fyrir ofan þó munurinn væri lítill. Njarðvík var þó betra liðið í öðrum leikhluta og var staðan þegar flautað var til hálfleiks 34-29.
Bæði lið byrjuðu seinni hálfleikinn brösulega og kom fyrsta karfan eftir rúmar tvær mínútur. Keflavík átti góða rispu en Njarðvíkurstúlkur svöruðu enn betur og þegar aðeins ein mínúta var eftir af þriðja leikhluta var staðan 45-43 fyrir Keflavík. Á þessari einu mínútu skoraði Keflavík fimm stig og sáu Njarðvíkurstúlkur ekki til sólar eftir það. Munurinn of mikill og tíminn of lítill. Loka tölur voru 61-51 og Keflavík sigraði einvígið 3-0.
Stigahæstar í liði Keflavíkur voru Pálína Gunnlaugsdóttir með 17 stig, Ingibjörg Jakobsdóttir með 14 stig, Lisa Karcic með 14 stig og 16 fráköst og Marina Caran og Bryndís Guðmundsdóttir voru með sitthvor 7 stigin.
Stigahæstar í liði Njarðvíkur voru Julia Demirer með 14 stig og 14 fráköst, Shayla Fields með 12 stig, Dita Liepkaine með 10 stig og Ólöf Helga Pálsdóttir með 8 stig.
Keflavíkurstúlkur fagna tveimur titlum á þessu tímabili en þær eru bæði Bikarmeistarar og Íslandsmeistarar. Til hamingju Keflavík!
Umfjöllun: Siggi Jóns - [email protected]
Myndir: Páll Ketilsson - [email protected]