Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurstúlkur Íslandsmeistarar í 7 manna bolta
Mánudagur 23. ágúst 2010 kl. 10:04

Keflavíkurstúlkur Íslandsmeistarar í 7 manna bolta

Síðasta umferðin í Íslandsmótinu í 7 manna bolta fór fram í Keflavík í gær, sunnudaginn 22. ágúst. Allir leikirnir voru leiknir að Iðavöllum 7 í Keflavík. Vindurinn spilaði stórt hlutverk er stelpurnar úr Keflavík fengu Tindastól/Neista og Fylki í heimsókn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrsti leikurinn var Keflavík - Fylkir og tapaðist hann 0-1, Fylkir sigraði síðan Tindastól/Neista 3-1. Síðasti leikurinn var Keflavík - Tindastóll/Neisti og sigruðu Keflavíkurstúlkur hann örugglega 3 - 0.

Þar voru að verki Sigurrós Guðmundsdóttir með 2 og Guðbjörg Þorvaldsdóttir 1 mark. Stelpurnar voru auðvitað alveg gríðarlega ánægðar í leikslok og alveg rígmontnar og höfðu alveg efni á því.

Sigurhringurinn var tekinn og síðan var tekið við gullverðlaunum og veglegum bikar úr hendi Rúnars Arnarsonar fulltrúa KSÍ og Þorsteins Magnússonar formanns Knattspyrnudeildar Keflavíkur.

Fylkisstúlkur lentu í öðru sæti og hrepptu því silfrið.

Þess má geta að fyrir leikjahrinuna í gær höfðu Keflavíkurstúlkur unnið alla sína leiki í mótinu. Þær enduðu því á toppnum og töpuðu aðeins þessum eina leik í gær.

2. flokkur Keflavíkur hefur æft með meistaraflokknum frá því í vetur og er það að skila sér vel í sterku liði nú.