Keflavíkurstúlkur í 3. sætið
Keflavíkurstúlkur tylltu sér í 3. sæti Landsbankadeildar með góðum sigri á Breiðabliki 2-1 í kvöld.
Leikurinn var jafn til að byrja með og staðan í hálfleik var 0-0. Í upphafi seinni hálfleiks komust Keflvíkingar, sem léku á heimavelli, yfir með laglegu marki Vesnu Smiljkovic, sem lyfti boltanum yfir Petru Lind Sigurðardóttur í marki Blika.
Það var svo aðeins fimm mínútum síðar sem Guðný Petrína Þórðardóttir jók forystuna, en hún fékk sendingu inn á teig og renndi knettinum framhjá Petru Lind.
Keflvíkingar léku á tíðum mjög góðan bolta þar sem Blikastúlkur áttu ekkert svar við stuttu og hnitmiðuðu spili þeirra.
Eftir seinna markið fóru Blikar þó að sækja fastar en náðu þó einungis að skora eitt mark, en þar var að verki Fanndís Friðriksdóttir.
Staðan í deildinni
VF-myndir/Þorgils 1: Vesna skoraði fyrra mark Keflvíkinga. 2: Guðný Petrína rennir knettinum í markið.