Keflavíkurstúlkur heiðraðar - Dorritt fór í Keflavíkurbúninginn
Dorrit Moussaieff fór á kostum í hófi sem haldið var Íslandsmeisturum Keflavíkur í körfubolta kvenna til heiðurs í félagsheimili Keflavíkur í gær. Dorrit var sérstakur gestur og hún fékk afhentan Keflavíkurbúning sem hún klæddi sig í á staðnum, öllum viðstöddum til mikillar gleði.
Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags ávarði samkomuna og sagði árangur Keflavíkurkvenna einstakur og undir það tóku Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands. „Þetta er einstakur árangur í íþróttasögu Íslands,“ sagði Hannes og Árni sagði: „Þetta erlíklega heimsmet“.
Keflavíkurstúlkur unnu alla Íslandsmeistaratitla sem voru í boði í vetur í 8 flokkum, frá 6. flokki upp í meistaraflokk. Liðin unnu líka alla bikarmeistaratitla nema einn og því er óhætt að segja að þetta hafi verið einstakt.
Viðtöl og myndir frá samsætinu koma inn á vf.is síðar í dag og á morgun.
Dorritt gerði sér lítið fyrir og fór bakvið Keflavíkurfánann og klæddi sig í Keflavíkurbúninginn sem henni var gefin.
Hópurinn sem sótti hófið, körfuboltameistarastúlkur, foreldrar og forráðamenn og gestir. Á efstu myndinni er Dorritt með fyrirliðum allra kvennaflokka Keflavíkur.
Dorritt gaf sér góðan tíma til að spjalla við gesti, sérstaklega ungu körfuboltastelpurnar.
Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur og bikaraflóðið eftir mesta afreksár eins félags á Íslandi.