Keflavíkurstúlkur færast nær úrslitunum
3. flokkur Keflavíkurkvenna steig stórt skref í átt að úrslitakeppni Íslandsmótsinns er þær sigruðu Fjölni á Iðavöllumí gær, 4-0.
Stelpurnar léku undan strekkingsvindi í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að vera mun meira með boltann gekk þeim illa að spila honum á milli sín og skapa sér færi. Það var ekki fyrr en á 31. mínútu að þær brutu ísinn. Dæmd var vítaspyrna þegar brotið var á Andreu og úr spyrnunni skoraði Helena Rós af öryggi. Átta mínútum seinna skoraði Karen Sævars eftir að hafa fengið boltann inn fyrir vörn Fjölnis og náði hún að vippa yfir markmanninn sem kom út á móti. Staðan 2-0 í leikhléi.
Í seinni hálfleik var búist við að róðurinn gæti orðið erfiður á móti þessum vindi og í svona roki getur tveggja marka forysta verið fljót að fara ef leikmenn eru ekki á tánum. Keflvíkingar voru svo sannarlega á tánum því þær áttu leikinn með húð og hári, spiluðu hreint stórfenglega á köflum og baráttan var hundrað prósent. Mark lá í loftinu, það kom svo á 64. mínútu eftir að Karen hafði leikið á tvo varnarmenn og rennt boltanum á Helenu Rós sem afgreiddi hann viðstöðulaust í mark Fjölnis. Fimm mínútum seinna gerðu þær svo út um leikinn þegar Andrea átti glæsilega sendingu inn á Karen sem var ekki í vandræðum að klára dæmið.
Þrátt fyrir að vera með tveggja marka forystu í leikhlé og vera í sjálfu sér ekki að spila vel þá var sá seinni stórglæsilega vel spilaður og virkilega gaman að sjá til þeirra. Þær lögðu Val einnig glæsilega í umferðinni á undan. Þær lentu undir, 2-0, í fyrri hálfleik, en með mikilli staðfestu og sigurvilja jöfnuðu þær og skoruðu loks sigurmarkið á síðustu mínútunum.
Nú er aðeins einn leikur eftir, gegn Haukum á heimavelli á laugardag. Með sigri í þeim leik er sætið í úrslitum tryggt.