Keflavíkurstúlkur ekki tilbúnar í sumarfrí
Loksins, loksins, sögðu margir stuðningsmenn Keflavíkurstúlkna þegar þær sýndu loks sitt rétta andlit og unnu flottan sigur á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deild kvenna í körfubolta í Blue höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 91-67, 24 stiga sigur þar sem Keflvíkingar léku á alls oddi. Staðan því 1-2 í einvíginu og Keflavík þarf að vinna næstu tvo leiki til að komast í úrslitaleikinn.
Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn og liðin skiptust á að hafa forystu en þegar honum lauk voru gestirnir yfir, 18-21. Þá settu Keflavíkurstúlkur í fimmta gír og hreinlega völtuðu yfir Stjörnustúlkur í öðrum leikhluta og unnu hann 34-15 og leiddu því með 16 stigum í hálfleik.
Þær héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og unnu að lokum stóran sigur. Miklu munaði að Brittany Dinkins sýndi takta sem hún hefur verið að gera í vetur en hún skoraði 36 stig en hún fékk góða hjálp frá öðrum í liðinu sem sýndi mikla baráttu sem mörgum hefur fundist vanta í hinum tveimur leikjunum. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 18 stig og Birna Valgerður var með 13 stig en þær voru bestar í Keflavíkurliðinu.
Sara Rún sagði að baráttan hafi verið allsráðandi hjá Keflvíkingum og þá hefði tekist að halda Danielle Rodriguez í skefjum en hún skoraði 20 stig. Stjörnustúlkur söknuðu þó tveggja góðra leikmanna, m.a. Bríetar Hinriksdóttur, systur Söru.
„Við vorum ekki tilbúnar í sumarfrí og ætlum að klára þetta einvígi,“ sagði Sara Rún í viðtali við VF en hún er í ítarlegra viðtali hér að neðan.
Keflavík-Stjarnan 91-67 (18-21, 34-15, 15-11, 24-20)
Keflavík: Brittanny Dinkins 36/12 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 18/6 fráköst, Birna Valgerður Benónýsdóttir 13, Erna Hákonardóttir 10/4 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 7/16 fráköst/7 stoðsendingar, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 3, Irena Sól Jónsdóttir 2, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, María Jónsdóttir 0, Eydís Eva Þórisdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Þóranna Kika Hodge-Carr 0.
Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez 20/9 fráköst/11 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 17/6 fráköst, Veronika Dzhikova 12/8 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 8/9 fráköst, Alexandra Eva Sverrisdóttir 5, Jenný Harðardóttir 3, Sólrún Sæmundsdóttir 2, Linda Marín Kristjánsdóttir 0, Aldís Erna Pálsdóttir 0, Sólveig Jónsdóttir 0, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir 0.
Brittany Dinkins meiddist lítillega á fæti á síðustu mínútunni en þakkar hér Stjörnukonu fyrir leikinn.
Birna Valgerður átti góðan leik.
Bryndís Guðmundsdóttir var öflug og hér er hún í sókninni.