Keflavíkurstelpurnar á toppinn
Keflavík tók á móti Víkingi í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu á Nettóvellinum í kvöld. Fyrir leikinn var Keflavík í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Tindastóli, en Víkingar í því sjötta.
Keflvíkingar ná forystu skömmu fyrir leikhlé
Keflavík byrjaði leikinn vel og sóttu stíft að marki Víkinga, eftir því sem leið á hálfleikinn komst Víkingur þó betur inn í leikinn en Keflavíkurstelpurnar höfðu þó töglin og hagldirnar og sköpuðu sér nokkur ágætis færi. Natasha Anasi var ógnandi og átti m.a. skot í utanverða stöngina, þá var Paula Watnick spræk og hættuleg fram á við.
Það var þó ekki fyrr en á 43. mínútu að fyrsta markið leit dagsins ljós, þar var Paula að verki eftir að hirða frákast af skoti Amelíu Rúnar Fjeldsted. Paula var svo aftur á ferðinni skömmu síðar þegar hún átti sendingu á Ísabel Jasmín Almarsdóttur sem tvöfaldaði forystu Keflavíkur (45'+1). Staðan 2:0 í hálfleik.
Víkingar minnka muninn
Stelpurnar í Keflavík hófu síðari hálfleikinn af krafti og voru ógnandi upp við mark Víkinga en markvörður þeirra sá við því sem kom á markið. Á 58. mínútu náðu Víkingar þó að skora gott mark og komast aftur inn í leikinn. 2:1. Við það að fá mark á sig misstu Keflavíkurstelpurnar aðeins dampinn en voru þó ekki lengi að hrista slenið af sér. Paula komst í gott færi aðeins nokkrum mínútum síðar en markvörðu Víkinga var enn á réttum stað og varði skot hennar vel.
Víkingar voru ákveðnar í að jafna leikinn en fyrirliði Keflvíkinga var ekki á þeim buxunum þegar hún tók á rás upp völlinn, gaf góða sendingu á mann leiksins, Anítu Lind Daníelsdóttur, sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið og Keflavík aftur komið með tveggja marka forystu (82'). Það var svo Kara Petra Aradóttir sem skoraði síðast markið aðeins mínútu eftir að henni var skipt inn á (89') og lokatölur leiksins urðu 4:1 fyrir Keflavík.
Keflavík einar á toppnum
Eftir leikina í sjöundu umferði sitja Keflavíkurstelpur einar í efsta sæti því á sama tíma tapaði Tindastóll fyrir Haukum. Keflvíkingar eru því efstar með sautján stig og hafa ekki tapað leik í deildinni í sumar.