Keflavíkurstelpur unnu Aftureldingu
Keflavík fór með sigur af hólmi þegar kvennalið Keflavíkur tók á móti Aftureldingu í dag á Nettóvellinum í 15. umferð Lengjudeildar kvenna.
Aðeins eitt mark var skorað í leiknum. Það kom á fimmtándu mínútu og var þar að verki Claudia Nicole Cagnina með sitt fyrsta mark fyrir félagið. Hún fékk langa og háa sendingu inn fyrir vörn Aftureldingar og afgreiddi boltann viðstöðulaust yfir markvörð gestanna sem átti engan möguleika á að verja. Glæsilegt mark.
Markið dugði Keflavík til sigurs því fleiri urðu mörkin ekki. Keflvíkingar voru betri aðilinn í leiknum þótt Afturelding legði aukinn kraft í sóknina á síðustu mínútunum.
Keflavík er í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Tindastóli og sjö stigum fyrir ofan Hauka sem eiga leik til góða.