Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkursigur í grannaslag (Video)
Föstudagur 25. nóvember 2005 kl. 11:41

Keflavíkursigur í grannaslag (Video)

Keflvíkingar báru sigurorð af Grindvíkingum í Iceland Express deild karla í gær, 101-109.

Leikurinn var hinn fjörugasti og var tekist hart á þannig að ljóst var að talsvert meira en tvö stig og annað sætið í deildinni var í húfi.

Keflvíkingar hófu leikinn betur og náðu 10 stiga forskoti í fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta tóku heimamenn stjórnina. Jeremiah Johnson var sjóðheitur og skoraði 17 stig í leikhlutanum, en Keflvíkingar voru alls ekki að dekka Grindvíkinga nógu vel og uppskáru eftir því. Þeir tóku sig þó á í lok fyrri hálfleiks þar sem þeir skoruðu síðustu 8 stigin og leiddu, 52-59.

Grindvíkingar komust aftur inn í leikinn í 3. leikhluta og var sérstaklega gaman að sjá áhorfendur liðanna þar sem þeir hvöttu sína menn ákaft allt til enda. Enda var spennan mikil og liðin skiptust á að hafa forystu.

Spennan var í algleymi í fjórða leikhluta þannig að oft lá við að syði uppúr, en Íslandsmeistararnir voru sterkari á endasprettinum. Þar kom í ljós munur á breidd liðanna því þó nokkuð var dregið af nokkrum lykilmönnum Grindvíkinga. Keflvíkingar sóttu undir körfuna þar sem skoruðu nokkrar góðar körfur og sigu rólega framúr. Munurinn jókst allt til loka og var ljóst í hvað stefndi.

Jeremiah Johnson var stigahæstur Grindvíkinga með 37 stig. Páll Axel Vilbergsson var með 20 stig og Guðlaugur Eyjólfsson var með 14 stig.

AJ Moye var atkvæðamestur Keflvíkinga með 30 stig, Magnús Gunnarsson var með 19, Zlatko Gocevski 18 og fytrirliðinn Gunnar Einarsson var með 16 stig, mörg á lokakaflanum þegar þeir sigu framúr.

Keflvíkingar eru nú í öðru sæti deildarinnar eftir fimm sigra í jafnmörgum leikjum. Grindvíkingar eru með 10 stig, eins og Keflavík og Fjölnir, en eru með lakara stigahlutfall.

Tölfræði leiksins

Videoviðtal: Sigurður Ingimundarson

Videoviðtal: Friðrik Ingi Rúnarsson

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024