Keflavíkursigur í framlengdum leik
Önnur framlengingin á fyrstu tveimur leikdögum í úrslitakeppninni
Keflvíkingar gerðu góða ferð í Hafnarfjörðinn í kvöld og óku heim með 1-0 forystu í einvígi sínu við Hauka í 8 liða úrslitum Domino´s deildar karla. Framlengja þurfti leikinn eftir æsispennandi lokamínútur en Keflvíkingar reyndust sterkari í framlengingunni og unnu að lokum 7 stiga sigur 79-86.
Leikurinn í kvöld var sem áður segir æsispennandi og munaði aldrei miklu á liðunum ef undanskilinn er 9 stiga munur Hauka snemma í seinni hálfleik. Reggie Dupree var sjóðheitur fyrir Keflvíkinga í fyrri hálfleik og bauð uppá 4 þriggja stiga körfur sem að kveiktu neistann sem að Keflavík þurfti á að halda. Haukar höfðu þó frumkvæðið allan fyrri hálfleik og leiddu með fjórum stigum, 39-35, að honum loknum.
Stemmningin snérist svo Keflvíkingum í vil í þegar Þröstur Leó setti þriggja stiga flautukörfu við lok 3. leikhluta og opnaði svo 4. leikhlutann með öðrum þristi. Arnar Freyr Jónsson kom svo bláklæddum Suðurnesjamönnum yfir með tveimur vítaskotum í kjölfarið og gestirnir búnir að éta upp 7 stiga forystu á einu bretti nánast. Töluverð barátta og harka var í leiknum og ljóst er að hvorugt lið ætlar sér snemma í sumarfrí í ár.
Emil Barja jafnaði metin fyrir Hauka 25 sekúndum fyrir leikslok með þriggja stiga körfu og Keflvíkingar náðu ekki að nýta sér þann tíma til að skora sigurkörfuna. Þeir mættu þó mun sterkari en heimamenn inn í framlenginguna og unnu hana 3-10 og þar með leikinn.
Keflvíkingar hafa þar með unnið mikilvægan sigur á útivelli sem gæti gert gæfumuninn áður en yfir lýkur.
Stigahæstir í liði Keflavíkur voru Davon Usher með 21 stig og Reggie Dupree og Valur Orri Valsson skoruðu 15 stig hvor.
Liðin mætast aftur á mánudagskvöldið í TM höllinni.