Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurseiglan tryggði liðinu í undanúrslit eftir framlengingu
Miðvikudagur 23. mars 2011 kl. 22:31

Keflavíkurseiglan tryggði liðinu í undanúrslit eftir framlengingu

„Við sýndum úr hverju við erum búnir og með gömlu góðu Keflavíkurbaráttunni í vörninni tókst okkur að jafna og klára dæmið í framlengingu. Við vorum undir 98% af leiknum en hann er 40 mínútur. Það má ekki gleyma því en þetta var alvöru leikur fyrir áhorfendur. Fannst þér það ekki,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur eftir sigurleik gegn ÍR í 8 liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í körfubolta í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 95-90 og Keflavík er komið í undanúrslit gegn KR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikurinn var mjög jafn í fyrri hálfleik. Heimamenn byrjuðu af krafti og skoruðu fyrstu körfurnar en ÍR-ingar komust fljótt inn í leikinn og þeir komust fljótt yfir og leiddu eftir fyrsta leikhlutann 17-19.
Keflvíkingum gekk illa í vörninni og ÍR-ingar áttu greiða leið inn að körfunni í maður á mann vörn heimamanna. Breiðhyltingar voru með sjálfstraustið í lagi og gáfu ekkert eftir og leiddu með fjórum stigum í leikhlé, 41-45.
ÍR-ingar voru mun grimmari en Keflvíkingar sem voru lengst af þriðja leikhluta slakir, bæði í vörn og sókn. Skotin gengu illa og leikgleðin og baráttan ekki sú sama og oft hefur einkennt liðið. Sjá mátti dapran svip á mörgum áhagendum Keflavíkur í stúkunni. Áhyggjusvipur á mörgum andlitum. Staðan eftir þrjá leikhluta 56-65 fyrir ÍR. Var Keflavík virkilega að detta út í fyrsta skipti í sextán ár.

Í lokaleikhlutanum sýndu heimamenn úr hverju þeir eru gerðir. Þeir lokuðu algerlega vörninni og ÍR-ingar komust ekkert áleiðis. Sóknin var hins vegar ekki upp á það besta hjá heimamönnum sem eru vanir að skora mikið, sérstaklega á heimavelli. En með baráttuviljann að vopni tókst þeim að minnka stöðugt muninn og á meðan stuðningsmenn Keflavíkur nöguðu neglur niður í kviku bættu þeirra menn sífellt í og tveimur sekúndum fyrir leikslok náði Thomas Sanders frákasti og skoraði svo og tryggði framlengingu. Lokatölur í venjulegum leiktíma 78-78. ÍR-ingar trúðu ekki sínum eigin augum. Þeir virtust algerlega með leikinn í höndum sér en þeir skoruðu ekki nema 13 stig í lokaleikhlutanum á meðan heimamenn skiluðu 22 stigum.

Keflvíkingar mættu miklu sterkari í framlenginguna og komust í átta stiga forskot, 86-78 og virtust ætla að klára þetta létt en ÍR-ingar komu til baka og minnkuðu muninn í minnst tvö stig. Lengra komust ekki og góð skotnýting á vítalínunni hjá Herði, Þresti og Serbanum Andrija Ciric kláraði dæmið. Gríðarlegur fögnuður braust út meðal stuðningsmanna Keflavíkur sem önduðu léttar eins og leikmenn og þjálfarar.

„Það var frábært að vinna þennan leik. Þetta var Keflavíkurseigla sem skilaði þessum sigri. Áhorfendur komu líka frábærir inn í þetta með okkur og studdu okkur frábærlega, allan leikinn og sérstaklega þarna í lokin þegar við þurftum virkilega á stuðningi að halda,“ sagði Ísafjarðartröllið Sigurður G. Þorsteinsson, besti maður Keflavíkur í leiknum.

Frammistaða Keflavíkur í þessum leik mun þó ekki duga til að vinna KR. Það er visst áhyggjuefni hvernig liðið hefur leikið í síðustu tveimur leikjum gegn ÍR þó svo það hafi dugað til að komast áfram Guðjón Skúlason var sammála því. „Nú setjumst við yfir þetta og lögum það sem þarf að laga. Við sýndum í lokin vörnina eins og á að leika hana. Sóknin þarf vissulega að vera betri en í síðustu tveimur leikjum. Við ætlum að laga hana og það verður gaman að mæta KR-ingum í næstu rimmu“.
Stig Keflavíkur: Sigurður G. 26, Andrija Ciric 21, Thomas Sanders 15, Hörður Axel 11, Magnús G. 9, Þröstur 8, Gunnar 3 og Jón N. 2 stig.

Stigahæstir ÍR voru Nemanja Sovic og Kelly Biedler 15 stig.

[email protected]

VF-myndir/Páll Orri Pálsson.

Thomas Sanders skoraði jöfnunarkörfu Keflavíkur þegar tvær sekúndur voru til leiksloka.

Sigurður G. Þorsteinsson var bestur í liði Keflavíkur í kvöld.

Keflvíkingar fagna í lok framlengingar. Seiglusigur.

Ciric var drjúgur og skilaði 21 stigi gegn ÍR.