Keflavíkurhjartað mun ráða för
- Skemmtilegast að vinna KR segir „Bjargvætturinn“ Þórarinn Kristjánsson
Margur Keflvíkingurinn man eflaust eftir afrekum Þórarins Kristjánssonar á knattspyrnuvellinum. Framherjinn kom ungur fram á sjónarsviðið og skoraði á ferli sínum mörg mikilvæg mörk fyrir Keflvíkinga. Þórarinn sem er 34 ára hefur haldið til í Noregi undanfarin fimm ár en ferill hans var helst til of stuttur, enda var hann að glíma við erfið meiðsli frá 25 ára aldri. Þórarinn þekkir það heldur betur að leika á Laugardalsvelli. Þar hefur hann þrisvar sinnum fagnað sigri en framherjinn fyrrum segir upplifunina ógleymanlega. Hann ætlar að sjálfsögðu að fylgjast með sínum mönnum á laugardaginn gegn KR, en hann fylgist með öllum leikjum liðsins.
Þórarinn rifjar upp þegar hann var 17 ára gutti og lék fyrst á Laugardalsvelli gegn ÍBV. „Maður fór bara inn í þetta eins og hvern annan leik. Maður var ungur og vitlaus og lét bara vaða. Þetta var bara í manni að spila fótbolta og taka á því. Seinna meir þegar við lékum til úrslita þá var maður kominn með meiri ábyrgð í liðinu þá gerði maður þetta allt öðruvísi og maður skynjaði þetta öðruvísi, ég sá hvað það er virkilega þýðir að vera Keflvíkingur. Það var tvennt ólíkt að vera þarna sem pjakkur og svo seinna meir,“ segir Þórarinn sem man vel eftir því hvernig stemningin í bænum breyttist umtalsvert þegar nálgaðist úrslitaleikinn.
Framherjinn hefur fengið að upplifa það að skora í úrslitaleiknum, en hann skoraði tvö mörk gegn KA árið 2004. Eins skoraði hann sigurmarkið í undanúrslitum gegn Leiftursmönnum í blálokin árið 1997. „Það er svakalegt að skora í svona leik enda er það draumur íslenskra knattspyrnumanna að spila svona leiki, hvað þá að skora.“ Með markinu í undanúrslitum árið 1997 hélt hann nafninu „Bjargvætturinn“ á lofti en það viðurnefni hafði hann fengið tímabilið áður eftir að hafa bjargað Keflvíkingum frá falli. „Það nafn er ekki ennþá farið, maður heyrir þetta ennþá,“ segir Þórarinn léttur í bragði. „Þetta nafn var hundleiðinlegt á sínum tíma en það er gaman að þessu núna,“ segir hann og hlær.
Þórarinn segir eitthvað sérstakt við það að leika gegn KR. Það sé lið sem Keflvíkingar elski að vinna. „Ég man þegar við unnum KR árið 2006. Fullur völlur og gargandi trylltir áhorfendur. Það var sérstaklega gaman að vinna þá. Ég get ímyndað mér hvernig leikmönnum líður núna að lenda á móti KR í svona leik. Þetta er líklega langstærsti leikur sem Keflvíkingar munu leika í langan tíma. Það er líklega skemmtilegast að vinna á móti KR, ég get alveg viðurkennt það. Maður leggur sig alltaf aðeins meira fram gegn þeim. Ég man þegar ég var að spila að við höfðum tak á þeim, við töpuðum ekki mörgum leikjum gegn þeim.“
Hvernig telur Þórarinn að leikurinn fari á laugardaginn? „KR eru vel mannaðir með fyrrum Keflvíkingana Baldur og Jónas og atvinnumenn í flestum stöðum. Ég held hins vegar að Keflavíkurhjartað muni ráða för á laugardaginn. Hjartað skiptir máli svona leikjum og það hefur Keflavík fram yfir þá. Maður fær auka orku í svona leikjum og ég tel að það muni tryggja okkur sigur á laugardaginn,“ segir Keflvíkingurinn. Bikar-reynsluboltinn Þórarinn hefur einfaldar ráðleggingar fyrir þá ungu Keflvíkinga sem stíga í fyrsta sinn á Laugardalsvöll um helgina. „Besta ráðleggingin sem ég hef er að fara með hjartað í þetta. Vera ekki að spá í því að þetta sé KR í svokölluðum risaleik, heldur taka þessu eins og hverjum öðrum leik. Vaða óhræddir í þetta verkefni,“ segir Bjargvætturinn að lokum.