Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurgrýla KR lifir góðu lífi
Mánudagur 9. júní 2008 kl. 01:18

Keflavíkurgrýla KR lifir góðu lífi


Keflvíkingar komust aftur á beinu brautina í Landsbankadeilda karla í dag með 4-2 sigri á KR. Eftir fjóra sigurleiki í röð urðu þeir Þrótturum að bráð en sigurinn á Vesturbæingum í dag var verðskuldaður.

KR-ingar komu inn í leikinn með afar slæmt gengi undanfarið og annálaða sögu um rýra uppskeru á Keflavíkurvelli. Hafa þeir eflaust ætlað sér að bæta úr hvoru tveggja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Heimamenn áttu fyrsta orðið þegar Guðmundur Steinarsson skoraði úr vítaspyrnu á 15. mínútu. Jóhannes Valgeirsson, dómari leiksins, dæmdi vítið á Jordao Diego sem handlék knöttinn innan teigs og Guðmundi brást ekki bogalistin.

Hörður Sveinsson var svo á ferð fyrir Keflavík sjö mínútum síðar þegar hann jók muninn með góðu skoti úr teignum eftir að Guðmundur hafði skallað boltann fyrir hann. Þetta var fyrsta mark Harðar fyrir liðið eftir að hann sneri aftur heim úr atvinnumennskunni fyrir skemmstu.


Eftir markið glæddist leikur gestanna til muna og þeir fengu nokkur álitleg færi, en uppskáru ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks þegar Björgólfur Takefusa skoraði úr víti sem dæmt var á Keflavík fyrir brot á Guðjóni Baldvinssyni.


KR hélt svipuðum dampi í upphafi seinni hálfleiks og á 48. mínútu var Bjögrólfur aftur á ferðinni og jafnaði . Hann skoraði í miklu klafsi í vítateig Keflavíkinga eftir hornspyrnu.


Ef áhorfendur hafa haldið að hlutirnir færu nú að falla með KR var Guðmundur nokkur Steinarsson fljótur að kveða slíkt í kútinn.


Fyrirliðinn kom sínum mönnum yfir á ný á 54. mínútu. Hörður endurgalt honum þá greiðann frá í fyrri hálfleik, en hornspyrna Harðar hafnaði fyrir fótum Guðmundar sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið.


Eftir þetta áttu bæði lið ágætis tilraunir þar sem Hallgrímur Jónasson átti t.d. hörkuskalla í slá KR-marksins.


Eftir því sem á leið færðu KR-ingar sig framar á völlinn í von um að jafna, en Símun Samuelssen, færeyski töframaðurinn í liði Kelfavíkur gerði út um leikinn með skemmtilegu marki á 86. Mínútu.

Hann fékk langan bolta fram á völlinn frá Þórarni Kristjánssyni og vippaði boltanum yfir Stefán Loga Magnússon sem hikaði í úthlaupi sínu.


Keflvíkingar voru þó ekki hættir því að örstuttu síðar mokaði Símun boltanum yfir í frábæru færi eftir skyndisókn. Maðurinn á bak við það færi var hinn óþreytandi Patrik Redo, sem átti frábæran leik í dag. Hann var reyndar óheppinn að ná ekki að kóróna frammistöðu sína með marki, en á síðustu mínútum leiksins komst hann einn innfyrir en misnotaði gott færi.


Stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenntu á Sparisjóðsvöllinn og fengu svo sannarlega sitthvað fyrir aurinn annað en góða veðrið. Keflavík er enn í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir FH og verður fróðlegt að sjá grannaslaginn sem verður í Grindavík um næstu helgi.


Keflavíkurliðið var afar sannfærandi lengst af í dag. Það sem einkennir liðið fyrir utan skemmtilega spilamennsku er mikill liðsandi og barátta. Hver einasti leikmaður liðsins spilar af mikilli ákveðni og skiptir þar ekki máli hvort það sé menn eins og Redo sem leika á fullu gasi í 90 mínútur eða þeir sem koma inn af bekknum eins og Þórarinn sem olli miklum usla á þeim 15 mínútum sem hann var inná.



Guðmundur Steinarsson, fyrirliði, er markahæsti maður deildarinnar sem stendur, kominn með sex mörk, en hann sagði í samtali við Víkurfréttir að þessi ákveðni og barátta væri eitt af lykilatriðunum í velgengni þeirra það sem af er sumri.

„Það býr ofsaleg orka í þessu liði. Það er eitt af því sem við höfum fram yfir flest önnur lið að við erum með mjög marga menn sem geta hlaupið nær endalaust.“
Eitt af vandamálum Keflvíkinga í sumar hefur verið sú staðreynd að þeir hafa ekki enn náð að halda hreinu. Það hefur mikið verið látið með þá staðreynd, en það virðist ekki koma að sök á meðan þeir skora fleiri mörk en andstæðingarnir.

„Við erum að fá þessi mörk á okkur á erfiðum tíma, fyrir og eftir hálfleik,“ bætti Guðmundur við.  „Það er bara ákveðið einbeitingarleysi. Við erum að reyna að laga þetta og fengum nú einu færra á okkur en síðast þannig að við ættum að fara að halda hreinu innan tíðar!“


Jónas Guðni Sævarsson var fyrirliði Keflavíkur á síðasta tímabli og lék með liðinu allan sinn feril þar til í fyrra þegar hann skipti yfir í KR. Hann sneri nú aftur á gamlar slóðir í fyrsta sinn, en bar lítið úr býtum. Hann átti sjálfur ágætan leik, og fékk góðar mótttökur úr stúkunni.


„Það var bara góð tilfinning að koma aftur,“ sagði hann í samtali við Víkurfréttir. „ Áhorfendur voru frábærir enda bjóst ég ekki við öðru, en vonandi verður uppskeran betri næst. Þessi Keflavíkurgrýla sem KR hefur verið að glíma við er greinilega enn við lýði þó búið sé að bæta keflvísku blóði í liðið!“


„Við komum sterkir til leiks og sýndum betri leik en margt sem við höfum sýnt í sumar og það er stígandi í okkar leik, en maður getur ekki sagt það endalaust. Við þurfum að fara að klára leiki. Það er erfitt að gefa tvö mörk í fyrri hálfleik gegn liði eins og Keflavík, en við komum samt til baka og sýndum ákveðinn karakter í því. Þeir slógu okkur svo út af laginu með þriðja markinu og kláruðu svo leikinn þegar við vorum komnir fram til að reyna að jafna.“

VF-myndir/Þorgils