Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurfjölskyldan mun þjappa sér saman
„... og eftir seinna markið gáfust menn ekki heldur upp og héldu áfram að sækja. Við gáfum alls ekkert eftir, heldur féllum einfaldlega á tíma,“ segir Eysteinn um leik Keflvíkinga gegn Íslandsmeisturum Vals.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 30. maí 2021 kl. 07:27

Keflavíkurfjölskyldan mun þjappa sér saman

Keflvíkingar hafa ekki átt neina draumabyrjun í Pepsi Max-deild karla og árangur liðsins ekki staðið undir væntingum. Þótt staðan líti ekki vel út sem stendur ríkir jákvæðni í herbúðum Keflavíkur og þjálfarar og leikmenn liðsins snúa bökum saman og hafa fulla trú á að gæfan muni snúast á sveif með þeim. Víkurfréttir ræddu við Eystein Húna Hauksson, annan aðalþjálfara meistaraflokks karla, um stöðuna eins og hún horfir við honum.

„Þetta hefur ekki verið neitt draumastart en sem betur fer hafa liðin í kringum okkur átt svipuðu gengi að fagna,“ segir Eysteinn. „Úr því að leikurinn við FH, sem átti að vera á sunnudaginn, verður ekki spilaður þá verða næstu fjórir leikir (gegn HK, Leikni, ÍA og Stjörnunni) mjög mikilvægir. Ekki það að þetta hafi verið neitt minna mikilvægt hingað til en það verður mikið undir í þessum leikjum, við erum að renna inn í mjög mikilvægan hluta af mótinu.“

– Það mátti greina mikla bætingu á liðinu í síðasta leik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já, það var ágætis bragur á liðinu. Menn voru einbeittir og búnir að vinna í sjálfum sér, sem var það sem við auglýstum eftir. Við vorum allir sammála um að við værum að leika undir getu og við hefðum ekki efni á því að vera þannig í marga leiki.“

Það er hægt að vera á sama máli og Eysteinn að úrslit síðustu leikja (á undan Valsleiknum) eru ekki að gefa rétta mynd af liðinu. Keflavík fékk á sig tólf mörk í þremur leikjum sem er alveg óskiljanlegt.

„Það er margt sem er hægt að rýna í ef menn vilja, bæði jákvætt og neikvætt. KA leikurinn var heilt yfir ekki góður, gegn Breiðabliki er leikurinn í jafnvægi þangað til við fáum gusu yfir okkur sem erfitt er að útskýra og öðrum leikjum höfum við tapað þrátt fyrir ýmsa jákvæða tölfræði eins og sköpun færa. Þar er margt sem bendir til þess að það þurfi ekki svo mikið að falla með okkur til að mikilvægasta tölfræðin fari að verða oftar okkur í hag.“

– Það hefur virst eins og menn sjokk­erist eitthvað við að fá mark á sig og fá svo annað á sig í kjölfarið.

„Já og það var eitt af því sem við ræddum fyrir Valsleikinn. Við vorum búnir að ákveða hvernig við myndum bregðast við ef við lentum í mótlæti eða undir í leiknum. Menn voru ákveðnir í því að láta það ekki á sig fá og þar mátti sjá bætingu frá síðustu leikjum – og eftir seinna markið gáfust menn ekki heldur upp og héldu áfram að sækja. Við gáfum alls ekkert eftir, heldur féllum einfaldlega á tíma. 

Það sem var við Valsleikinn er að við vorum bara samstilltir og solid varnarlega, vorum að vinna þetta saman sem er eitthvað sem við söknuðum dálítið í leikjunum á móti KA og Fylki. Við gerðum hins vegar slæm mistök í föstum leikatriðum þar sem við ætlum að gera betur í framhaldinu.

Það sem stendur auðvitað upp úr eru úrslitin og staðan er eins og hún er. Nú fer að líða lengra á milli leikja og þá fáum við meiri tíma til að vinna í okkar málum – í staðinn fyrir að vera bara að hvíla okkur og bíða næsta leiks. Ég tel að það sé mikilvægara fyrir okkur en mörg önnur lið í þessari deild.

Ég var ánægður með það hvað menn komu klárir í leikinn á móti Val, því það höfðu bara liðið laugardagur og sunnudagur frá Fylkisleiknum sem var töluvert andlegt kjaftshögg. Hvernig menn komu til leiks gegn Val og hvernig menn kláruðu þann leik. Það kom mér ánægjulega á óvart hvað það var mikill kraftur í strákunum en við vorum einfaldlega felldir á augnabliks einbeitingarleysi og munum gera betur þar. Við getum ekki endalaust sagt að þetta komi í næsta leik, við þurfum að fara að færa okkar fólki fleiri stig.“

Það verður Keflavíkurfjölskyldan sem klárar þetta saman

– Þið eruð ekkert að láta þetta slá ykkur út af laginu. Það er alveg stemmning í liðinu, er það ekki?

„Það er enginn að fara á taugum hjá okkur. Fyrir leikina í kvöld [þriðjudag] erum við þrátt fyrir allt í bestu stöðu sem karlalið Keflavíkur hefur verið í síðan 2014. Í því eru klárlega sóknarfæri og þannig eigum við að líta á þann punkt sem við stöndum á. Þetta er bara rétt að byrja og spurningin er ekki hvernig við byrjum, heldur hvernig við endum. Við erum ákveðnir í því að láta nokkur högg ekki á okkur fá og halda áfram að læra og þróa okkur – og vinna fleiri leiki sem fyrst í þessari deild. Það er mikill hugur í mannskapnum.

Nú á að fara að leyfa fleiri áhorfendur á leikjum og við treystum á að Keflvíkingar flykki sér saman, standi að baki liðinu og láti í sér heyra – það er svo sannarlega þörf á því. Ef við klárum þetta verkefni þá verða það ekki þessi ellefu sem eru úti á vellinum eða þessir tuttugu sem eru í hópnum sem gera það, heldur verður það Keflavíkurfjölskyldan sem klárar þetta saman. Það er bara þannig að við þurfum mikinn stuðning, ekki bara að Keflvíkingar mæti á völlinn heldur láti líka virkilega í sér heyra – það mun skipta öllu máli í framhaldinu. Ég vil leggja áherslu á það.“

Sögusagnir um ósætti þjálfaranna segir Eysteinn að séu úr lausu lofti gripnar. VF-myndir: Hilmar Bragi

Sögusagnir um ósætti

Það er ekki hægt að sleppa Eysteini án þess að spyrja hann að lokum hvort eitthvað sé hæft í þeim gróusögum sem ganga um að samband aðalþjálfara Keflavíkur sé stirt um þessar mundir.

„Við erum í það minnsta sammála um að það vanti fleiri stig á töfluna. Samstarf okkar hefur verið í gangi með miklum ágætum síðan í október 2019 og síðan þá held ég að allir séu sammála um að árangurinn hjá Keflavík verið mjög ásættanlegur. Gangurinn hefur hikstað aðeins núna en slíkt þjappar mönnum bara saman ef þeir hafa einhvern karakter.“

Myndasafn Hilmars Braga Bárðarsonar, ljósmyndara Víkurfrétta, úr leik Keflavíkur og Vals fylgir fréttinni.

Keflavík - Valur (1:2) | Pepsi Max-deild karla 24. maí 2021