Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurbúningurinn selst eins og heitar lummur
Jón Óli Jónsson og Hörður Sveinsson í nýja Keflavíkurbúningnum sem er svartur. Varabúningurinn er gulur. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 5. júní 2014 kl. 13:32

Keflavíkurbúningurinn selst eins og heitar lummur

Einkar laglegur safngripur

„Ég hef aldrei kynnst öðru eins. Vanalega er það einn og einn útlendingur sem kaupir hérna Keflavíkurbúning hjá mér en núna er allt vitlaust,“ segir fyrrum varnarjaxlinn Sigurður Björgvinsson hjá K-sport, en búningur Pepsi-deildarliðs Keflavíkur fór í sölu hjá versluninni í dag.

Fjölmargir höfðu lagt inn pöntun fyrir treyju en Sigurður segist hafa fengið spurningar um búninginn allt frá því að hann var kynntur til leiks í vor. „Ég er einnig farinn að senda búninginn erlendis en gamlir Keflvíkingar vilja ólmir næla sér í treygju.“ Safnarar hafa einnig sýnt búningnum áhuga en hann er merktur sérstaklega Íslandsmeistaraliðinu 1964 eins og sjá má á mynd hér til hliðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir utan það að þykja einstaklega laglegur, er búningurinn sögulegur. Nú eru 50 ár frá því að Keflvíkingar urðu fyrst Íslandsmeistarar en þá léku þeir í keimlíkum búningum. Keflavík mun einungis nota „50 ára Íslandsmeistarabúninginn“ á þessari leiktíð og því er líklega eftirsóknarverðara að tryggja sér búninginn. Sigurður segir að vanalega seljist búningar liðsins ekki ýkja vel en núna sé annað uppi á teningnum. „Þessi búningur hefur vakið óhemju athygli. Ég er sjálfur til í að eiga þennan en vanalega gaf ég frá mér alla Keflavíkurbúningana á ferli mínum sem leikmaður,“ segir Sigurður hress í bragði en hann er næst leikjahæsti leikmaður liðsins frá upphafi. Hér að neðan má sjá innslag frá Sjónvarpi Víkurfrétta þar sem búningurinn var kynntur til sögunnar. Innslagið hefst eftir 4:00 mínútur.