Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

„Keflavík var fyrsti kostur,“ segir Haukur Ingi sem er  í hóp hjá Grindvíkingum í kvöld
Miðvikudagur 3. ágúst 2011 kl. 12:00

„Keflavík var fyrsti kostur,“ segir Haukur Ingi sem er í hóp hjá Grindvíkingum í kvöld

Í kvöld fara fram fimm leikir í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Grindvíkingar sækja Valsmenn heim að Hlíðarenda en Keflvíkingar sitja hjá þar sem leik þeirra gegn KR var frestað vegna þátttöku KR-inga í Evrópukeppni.

Grindvíkingar hafa bætt við sig leikmönnum fyrir komandi átök í deildinni og hafa m.a fengið Keflvíkinginn Hauk Inga Guðnason til liðs við sig. Haukur hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið eins og svo oft áður en pilturinn hefur verið óheppinn með meisli í gegnum tíðina. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Haukur vera í betra formi en hann bjóst við að vera í eftir rúmlega átta mánaða fjarveru frá knattspyrnuiðkun en hann hefur á ferli sínum leikið með Keflavík, Liverpool, KR og Fylki.

„Ég hef haldið mér ágætlega við og er í fínu standi og hlakka til að spila með Grindvíkingum,“ sagði Haukur Ingi fyrr í dag. „Hópurinn er fullur af hæfileikamönnum en það hefur vantað upp á stöðuleikann hjá liðinu. Það þarf að fínpússa þetta og mynda eina sterka heild,“ segir Haukur en hann hefur fylgst með Grindvíkingum útundan sér í sumar. Honum líst vel á aðstæður hjá Grindavík og segir alla umgjörð í kringum klúbbinn vera með besta móti, það sé vitað mál og svo hafi verið lengi.

Haukur segist ekki fara leynt með það að Keflavík hafi verið hans fyrsti kostur enda sé hann Keflvíkingur en ekki hafi tekist að klára það mál. „Ástæður fyrir því eru þess eðlis að ég tjái mig ekki um það á opinberum vettvangi,“ sagði Haukur en fjöldi annara úrvalsdeildarliða sóttust eftir kröftum Hauks Inga.

Grindvíkingar leika eins og áður segir gegn Valsmönnum í kvöld og Haukur er í hópnum og því er möguleiki á því að hann fái að spreyta sig í kvöld. „Það væri frábært að ná í þrjú stig í kvöld og byggja svo á því en Valsmenn eru þéttir og leikurinn verður erfiður,“ sagði Haukur Ingi að lokum.

Mynd: Haukur í leik með Keflvíkingum í fyrra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024