Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík vann stöllur sínar í Grindavík í hörkuspennandi leik, 78-80.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 31. október 2023 kl. 21:26

Keflavík vann stöllur sínar í Grindavík í hörkuspennandi leik, 78-80.

Keflavíkurliðið ósigrað það sem af er vetri.

Toppliðin í Subway-deild kvenna, Suðurnesjaliðin Grindavík og Keflavík mættust í kvöld í HS Orkuhöll Grindvíkinga. Fyrir leikinn var lið Keflavíkur ósigrað en Grindvíkingar höfðu tapað einum leik. Eftir jafna byrjun fyrri hálfleiks tóku gestirnir úr Keflavík yfirhöndina og leiddu með 9 stigum að honum loknum, 39-48. Heimastúlkur virtust ætla snúa taflinu sér í vil í seinni hálfleik en allt kom fyrir ekki og Keflavík vann nauman sigur, 78-80.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimastúlkur voru á undan upp úr blokkunum og náðu fljótlega 9-2 forystu. Keflavíkurstúlkur létu ekki slá sig út af laginu og náðu vopnum sínum og fljótlega sást 12-11 á töflunni. Liðin skiptust síðan á körfum út opnunarfjórðunginn sem endaði hnífjafn, 23-23. Næstum því bandarísku nöfnurnar Danielle og Daniela voru stigahæstar fyrir sín lið, báðar með 7 stig. 

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur, vörnin þéttist hjá þeim og áttu Grindavíkurstelpur í mestu vandræðum með að finna leið að körfunni nema í hröðum leik. Þegar fjórðungurinn var hálfnaður var áfram hnífjafnt, 30-30 en gestirnir héldu frumkvæðinu, voru áfram þéttar í vörninni og áttu líka auðveldar með að keyra að körfu heimastúlkna og löbbuðu inn í hálfleiksræðu Sverris Þór þjálfara með níu stiga forskot, 39-48. Daniela Wallen áfram hlutskörpust hjá Keflavíkurstúlkum með 16 stig en hjá Grindavík var Eva Braslis stigahæst með 12 stig. Danielle Rodriquez bætti ekki einu stigi við sín 7 stig og þar lá kannski munurinn.

Danielle byrjaði seinni hálfleikinn sterkt fyrir Grindavík og setti fyrstu 6 stigin og munurinn kominn niður í 3 stig, 45-48. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður munaði bara tveimur stigum, 52-54 en aftur bættu gestirnir í og áður en varði var munurinn kominn í 8 stig, 52-60 og liðin héldust nánast hönd í hönd út fjórðunginn og sex stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 58-64.

Ólöf Rún Óladóttir stal flottum bolta í byrjun fjórða, skoraði og brotið var á henni og stemningin snerist um tíma með heimastúlkum. Thea Ólafía setti flottan þrist og allt í einu var munurinn nánast orðinn að engu. Æsispennandi lokamínútur gengu nú í garð og munaði minnstu að Hekla Eik kæmi Grindavík yfir með þristi í stöðunni 73-75 en skotið rétt geigaði. Betur gekk stuttu seinna hjá henni og hún jafnaði leikinn, 78-78 en vörn Grindavíkur galopnaðist í næstu sókn og Keflavík komst yfir þegar 12 sekúndur lifðu leiks og Lalli tók leikhlé, spennan rafmögnuð! Danielle kom boltanum inn á Eve Braslis en skot hennar á lokasekúndinni geigaði og Keflavík vann því nauman sigur, 78-80.

Daniela Wallen og Birna Benónýsdóttir voru stigahæstar Keflvíkinga með 23 stig hvor og Daniela tók auk þess 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar, klárlega kona leiksins. Stigaskorun heimakvenna var jafnari, Danielle og Hulda báðar með 15 stig, Eva Braslis með 14, Hekla Eik með 12 og Chariesse Fairley var með 10 stig. Hún tók auk þess 15 fráköst skv. statskýrslunni og Danielle var með 18 fráköst skv. sömu heimildum.

Keflavíkurstúlkur fara því inn í landsleikjahléið ósigraðar en þær hljóta að teljast líklegir kandidatar í vetur. Grindavíkurliðið hefur farið mjög vel af stað og verður fróðlegt að fylgjast með þeim áfram.


Myndirnar tók formaður Körfuknattleiksdeildar UMFG, Ingibergur Þór Jónasson.

Eva Braslis var með 14 stig of 5 fráköst

Eva Braslis átti lokaskotið sem rétt geigaði

Ólöf Rún átti fínan leik fyrir Grindavík