Keflavík vann Selfoss
Lokaleikur Keflvíkinga fór fram í Lengjubikarnum í gær þegar þeir fengu Selfyssinga í heimsókn í Reykjaneshöllina. Leikar fóru þannig að Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi 3-1. Selfyssingar náðu forystu snemma í fyrri hálfleik og skömmu síðar fengu Keflvíkingar færi á að jafna úr vítaspyrnu. Guðjón Árni Antoníusson misnotaði hins vegar spyrnuna. Hinn ungi og efnilegi Arnór Ingvi Traustason jafnaði þó skömmu síðar fyrir heimamenn og því jafnt í hálfleik, 1-1. Keflvíkingar kláruðu svo leikinn í seinni hálfleik með tveimur mörkum frá Magnúsi Þóri Mattíassyni og Bojan Stefáni Ljubicic. Auk þess varði Ómar Jóhannsson vítaspyrnu Selfyssinga.
Víðismenn nældu sér einnig í sigur í gær í Reykjaneshöllinni er þeir lögðu Aftureldingu 2-1. Reynismenn sóttu stig í hendur KB-manna á Leiknisvelli í gær en lokatölur þar urðu 2-2. Frekari upplýsingar um markaskorara liggja ekki fyrir í þeim leikjum.
Mynd: Arnór Ingvi (til hægri) og Ásgrímur Rúnarsson fóru til reynslu hjá W.B.A fyrir skömmu en Arnór skoraði fyrsta mark Keflvíkinga í gær.