Keflavík vann Njarðvík í nágrannaslag. Grindavík lagði Tindastól
KEFLAVÍK-NJARÐVÍK
Keflavík lagði granna sín úr Njarðvík að velli með 90 stigum gegn 73 í Intersport-deildinni í kvöld. Sigur Keflvíkinga var sannfærandi þar sem Njarðvíkingar náðu sér ekki nokkurn veginn á strik. Áhangendur beggja liða fylltu Íþróttahúsið í Keflavík og studdu sína menn dyggilega. Stemmningin í húsinu var í einu orði sagt frábær og gefur góð fyrirheit fyrir bikarslag liðanna um næstu helgi.
Leikurinn byrjaði með hamslausri baráttu eins og við var að búast hjá þessum fornu fjendum. Var mönnum orðið full heitt í hamsi þar sem viðskiptum Páls Kristinssonar og Gunnars Einarssonar endaði með því að Páll hrinti Gunnari í gólfið. Leikmennirnir leystu þó úr deilumálum sínum, en slík hegðun er ekki sæmandi fullorðnum mönnum sem vita mæta vel að þeir ættu að ganga fram með góðu fordæmi þar sem ungir krakkar eru að fylgjast með þeim.
Varnarleikur heimamanna var ákaflega góður framan af og komust Njarðvíkingar ekki langt áleiðis. Brandon Woudstra var í algerri gjörgæslu og fékk afar fá tækifæri til að láta ljós sitt skína. Keflvíkingar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og fóru með 16 stiga mun í leikhlé, 52-37.
Í seinni hálfleik stigu heimamenn af bensíngjöfinni en þrátt fyrir það gekk Njarðvíkingum lítið að minnka muninn. Mikll hasar var jafnan undir körfunni þar sem Friðrik Stefánsson og Derrick Allen áttust við. Með þessum leik sýndi Allen og sannaði að hann er besti erlendi leikmaðurinn í deildinni. Hann hefur aldrei átt slakan leik í deildinni í vetur og var drjúgur í kvöld. Friðrik gaf honum lítið eftir og verður fróðlegt að sjá kappana eigast við í Höllinni í bikarúrslitunum.
Þeir grænklæddu söxuðu jafnt og þétt á forskot Keflvíkinga undir lokin en tíminn var ekki nægur þannig að öruggur heimasigur var staðreynd.
Njarðvíkingar urðu fyrir mikilli blóðtöku þegar Brandon Woudstra sneri sig illa á ökkla í síðasta leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum. Hann hafði ekki nokkurn veginn náð sér á strik og einungis hitt úr tveimur skotum utan af velli. Samkvæmt síðustu fréttum hafði Brandon snúið sig illa á ökkla og verður að öllum líkindum ekki leikfær fyrir títtnefndan bikarleik og er þar skarð fyrir skildi því Brenton Birmingham er einnig meiddur og mun ekki spila næstu 2-4 vikurnar.
Guðjón Skúlason, annar þjálfara Keflvíkinga, var ánægður með að sækja sigur í erfiðum leik, en sagði sína menn þó oft hafa spilað betur. „Vörnin hjá okkur var mjög góð framan af, en sóknarleikurinn hjá okkur var ekkert frábær. Við gátum leyft öllum að spila og strákarnir af bekknum skiluðu sínu eins og alltaf.“ Aðspurður að því hvort þessi sigur væri gott veganesti fyrir næstu rimmu liðanna sagði hann að þetta gæti hjálpað, en lið ættu þó oft erfitt með að ná sér upp í bikarleikjum eftir sigur á sama liðinu stuttu áður.
Friðrik Ragnarsson hjá Njarðvík var síður en svo sáttur við frammistöðu sinna manna í leiknum og sagði liðið hafa spilað sinn versta leik í langan tíma í kvöld. „Keflvíkingar voru bara að leggja sig meira fram. Þeir náðu öllum löngu fráköstunum og lausu boltunum. Þetta var bara lélegt hjá okkur frá A til Ö. Þetta kemur ekki fyrir aftur, enda er eina leiðin upp núna.“
Stigahæstir:
Keflavík: Allen 25, Halldór 13, Bradford 13, Arnar Freyr 11.
Njarðvík: Friðrik 26, Páll 17, Brandon 12, Guðmundur 10.
VF-ljósmynd/Héðinn Eiríksson: Frá leik Keflavíkur og Njarðvíkur í kvöld.
GRINDAVÍK-TINDASTÓLL
Grindvíkingar halda enn í toppsæti Intersport-deildarinnar, en voru hér um bil búnir að glutra niður unnum leik gegn Tindastóli á heimavelli sínum. Lokastaðan var 77-76 eftir spennandi lokasekúndur þar sem sigurinn hefði hæglega getað fallið á hvorn veginn sem var.
Heimamenn náðu snemma forystu og héldu henni allt þar til þeir höfðu náð 16 stiga forystu í seinni hálfleik. Þá var eins og allt hrykki í baklás og ekkert gekk. Stólarnir gengu á lagið og voru nær búnir að stela sigrinum eins og áður sagði.
Friðrik Ingi, þjálfari Grindvíkinga, prísaði sig sælan í leikslok, en játaði að þeir hefðu unnið marga svona leiki í vetur. „Þetta má segja að þetta hafi verið ljótur sigur. Sóknarleikurinn hjá okkur undir lokin var í molum og ekkert gekk. Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur því við höfum verið að vinna í svona tvísýnum baráttuleikjum í allan vetur. Svona frammistaða á ekki eftir að duga til í næsta leik, en ég hef fulla trú á að við náum okkur upp fyrir hann.“
Bandaríkjamaðurinn Stan Blackmon, sem er til reynslu hjá Grindvíkingum, spilaði í kvöld, en náði sér ekki sérstaklega á strik, en Friðrik segir að hann sjái margt í stráknum og að hann verði hjá þeim í nokkra daga í viðbót til athugunar.