Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík vann Njarðvík í lélegum og leiðinlegum leik
Fimmtudagur 11. mars 2010 kl. 22:06

Keflavík vann Njarðvík í lélegum og leiðinlegum leik

„Þetta var ekkert sérstakt, það er rétt. Sigurinn skiptir hins vegar miklu máli, að ná öðru af tveimur efstu sætunum tryggir heimaleikjarrétt og það er markmiðið,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur eftir sigur á nágrönnunum úr Njarðvík 82-69 í Iceland Express deildinni í körfu í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Okkur hefur gengið illa á móti Njarðvík og ekki unnið þá í deildinni undanfarin ár þannig að það var gott að brjóta þann ís. Það eru allir lokaleikirnir erfiðir og næsta mánudag mætum við KR,“ sagði Guðjón.

Keflvíkingar voru með forystu frá fyrstu mínútu til loka leiks. Þeir náðu fimm stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta, 23-18 þar sem jafnt var á með liðunum. Í öðrum leikhluta gekk ekkert hjá Njarðvík og þeir skoruðu ekki stig í sjö mínútur. Á meðan settu heimamenn niður tíu stig og breyttu stöðunni í 33-18 en í leikhlé var staðan 37-23.


Njarðvíkingar voru mjög slakir í fyrri hálfleiknum og stigaskorið sýnir það. Þeir töpuðu boltanum 18 sinnum og það er eitthvað sem gengur ekki, hvað þá á heimavelli Keflavíkur. Heimamenn léku betur en sýndu þó ekki neina snilldartakta eins og þeir gerðu t.d. í síðasta leik á móti Njarðvík í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Njarðvíkingar byrjuðu ágætlega í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í sex stig, 37-31 en lengra komust þeir ekki og heimamenn bættu aftur í forskotið. Þeir leiddu með níu stigum efir þrjá leikhluta og í þeim síðasta juku Keflvíkingar forskotið sem endaði í þrettán stigum, 82-69.

Stigahæstir hjá Keflavík voru Burns með 20, Gunnar Einarsson með 16 og þeir Þröstur Jóhannsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru báðir með 12 stig en sá stóri var jafnframt með 12 fráköst í leiknum, þar af tíu í síðari hálfleik.
Hjá Njarðvík skoraði Magnús Gunnarsson 15 stig, Nick Bradford var með 13, Friðrik Stefánsson 12 og Guðmundur Jónsson 11 stig.

Tölur leiksins segja mikið um hann. Njarðvík hafði skorað 18 stig þegar 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Átján stig, sagt og skrifað.Hvað er að gerast Siggi Ingimundar?
Enginn leikmaður á vellinum skaraði framúr í þessum leik sem var bæði slakur og leiðinlegur. Eitthvað sem maður átti ekki von á. Lítil stemmning myndaðist, fá „fögn“ og engin læti þegar leik lauk. Leikmenn og aðrir bara gengu inn í búningsklefa eins og eftir æfingu. Þannig vilja áhorfendur ekki hafa það og við biðjum bæði lið að taka það til athugunar og gera betur næst. Með svona frammistöðu vinna hvorugt þessara liða deildina.

VF-myndir/Páll Orri.

Texti: pket.

--

--