Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík vann Njarðvík í fyrsta úrslitaleiknum - gríðarleg spenna og fjör
Laugardagur 2. apríl 2011 kl. 18:57

Keflavík vann Njarðvík í fyrsta úrslitaleiknum - gríðarleg spenna og fjör

„Þetta var dýrari týpan, algerlega frábært og stórkostlegur körfuboltaleikur. Áhorfendur fengu mikið fyrir peninga og stelpurnar mínar sýndu mikinn karakter að ná að skora lokakörfuna á síðustu sekúndunum,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkurstúlkna sem unnu eins stigs sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík í fyrsta leik úrslitanna í Iceland Express deildarinnar í körfu í Toyota höllinni í Keflavík í dag. Lokatölur urðu 74-73 í æsispennandi viðureign.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er hægt að taka undir orð þjálfara Keflavíkur. Leikurinn var af dýrari gerðinni eins og stundum er sagt. Það var jafnt með liðunum allan tímann en gestirnir voru þó oftar yfir og 34-38 í leikhlé. Keflavíkurstúlkur voru ekki eins beittar og þær grænu en náðu að hanga í þeim.

Það var sama uppi á teningnum í síðari hálfleik. Liðin skiptust á að skora og spennan hélt áfram. Áhorfendur sem fylltu Toyota höllina voru vel með á nótunum, ekki síst þeir grænu sem fjölmenntu til að styðja Njarðvík. Þegar tvær mínútur voru eftir náði Keflavík þriggja stiga forskoti. Ólöf Helga Pálsdóttir minnkaði muninn í eitt stig og aftur eftir að Birna hafði bætt við tveimur Keflavíkurstigum. Lisa Karcic kom Keflavík í 72-70 með einu vítaskoti en í næstu sókn tókst Njarðvíkingum ekki að skora og því virtust heimamenn með pálmann í höndunum þegar hálf mínúta var eftir. Sóknin skilaði ekki körfu og síðan kom ótrúleg þriggja stiga karfa frá Ditu Liephalne og stuðningsmenn Njarðvíkur ærðust af gleði og héldu að sigurinn væri kominn í höfn, 72-73 og Keflavík tók tíma þegar tæpar sex sekúndur voru til leiksloka. Heimamenn sóttu að körfunni og reyndu skot. Lisa Karcic náði frákastinu og skaut þegar rétt innan við sekúnda var eftir. Boltinn endaði ofan í og Keflvíkingar fögnuðu sigrinum innilega. Njarðvíkingar trúðu ekki sínum eigin augum. Hvernig gat þetta gerst. Lokatölur 74-73 í stór skemmtilegum körfuboltaleik.

„Ég er náttúrulega gríðarlega svekktur. Við vorum grátlega nálægt því að klára þetta en við horfum fram á við þrátt fyrir tapið. Við eigum talsvert mikið inni og ætlum að halda áfram. Það er nýtt hjá Njarðvík að vera í titilbaráttu í kvennaboltanum og þetta var frábær leikur. Stelpurnar stóðu sig vel þó svo það hafi vantað herslumuninn í blá lokin. Þær munu mæta tilbúnar í næsta leik og við ætlum að vinna hann,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkurstúlkna.

Marina Caran var stigahæst hjá Keflavík með 28 stig, þar af 21 í seinni hálfeik og munaði aldeilis um hennar framlag því lykilmenn eins og Bryndís Guðmundóttir (12 stig) og Birna Valgarðsdóttir (9 stig) hafa oft leikið betur. Lisa Karcic skoraði 15 stig og meðal annars lokakörfuna og Pálína Gunnlaugsdóttir var með 9. Ingibjörg Jakobs og Hrund Jóhannesdóttir voru með sitt hvor 2 stigin.
Hjá Njarðvík var Shayla Fields stigahæst með 29 stig og átti frábæran leik. Julia Demrier skilaði 18 stigum í hús og Dita Liepkalne 15. Ólöf Helga Pálsdóttir skoraði 6 stig og Ína María Einarsdóttir 3 stig.

Næsti leikur verður í Ljónagryfjunni á þriðjudag. Miðað við leikinn í dag þá má búast við hörku fjöri. Njarðvík sýndi það í dag að það er sýnd veiði en ekki gefin. Liðið er borið uppi af færri leikmönnum en hjá Keflavík og spurning hvort það muni hafa eitthvað að segja ef úrslitaviðureignin verður löng. Keflavíkurstúlkur eru hungraðar í titil númer tvö í vetur og vilja gera allt til að vinna tvöfalt.

Videoviðtöl í VefTV hér á vf.is eru væntanleg.

VF-myndir/pket og Siggi Jóns.

Texti: [email protected]

Liepkalne skorar glæsilega þriggja stiga körfu og kemur Njarðvík yfir tæpum 7 sekúndum fyrir leikslok.

Lisa Karcic skorar sigurkörfu Keflavíkur þegar innan við sekúnda er til leiksloka. Sjáið skotklukkuna, hún sýnir 0,58 sek.

Njarðvíkurstúlkur trúa ekki sínum eigin augum í leikslok.

Hart barist, Karcic og Liepkalne.

Jonni Keflavíkurþjálfari ræðir við Ingibjörgu Jakobsdóttur.

Shayla Fields var stigahæst hjá UMFN með 29 stig. Gríðarlega sterkur leikmaður.

Bryndís Guðmundsdóttir reynir að lauma boltanum í Njarðvíkurkörfuna, hin sterka Julia Demirer er til varnar.