Keflavík vann Njarðvík í æsispennnadi leik - lofar góðu fyrir framhaldið í 8 liða úrslitunum
Íslandsmeistarar Keflvíkinga unnu sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta í Toyota höllinni í kvöld. Leikurinn var æsispennandi en heimamenn voru yfir allan tímann og höfðu 8 stiga sigur 96-88.
Keflavík náði fimm stiga forskoti í fyrsta leikhluta 24-19 og leiddi allan leikinn, með 3 stigum í hálfleik 43-40 og ellefu stigum í lok þriðja leikhluta. Mestur varð munurinn 16 stig, 84-64 en Njarðvíkingar spýttu þá í lófana og minnkuðu muninn í 3 stig á lokakaflanum. Keflvíkingar hleyptu þeim þó aldrei inn fyrir dyrnar og innsigluðu sigurinn í lokin.
Heimamenn börðust gríðarlega frá fyrstu mínútu, bæði í vörn og ekki síður í sókn og hinn endurkomni Jesse Pelot-Rosa var í miklu stuði en hann kom til liðsins í haust en fór heim þegar kreppan skall á. Hann átti stórleik og skoraði 29 stig. Gunnar Einarsson (17 stig), Hörður Axel Vilhjálmsson (18 stig), Sigurður Þorsteinsson (10 stig) og Sverrir Þór Sverrisson (9 stig) léku allir mjög vel og þetta var líklega einn besti leikur liðsins í langan tíma.
Njarðvíkingar léku ekki illa, alls ekki, enda hefðu þeir getað stolið sigrinum í lokin með smá heppni þó maður hafi haft það á tilfinningunni einhvern veginn að Keflavík myndi ekki láta forystuna af hendi. Hjá þeim grænu var Heath Sitton með 25 stig, gríðar góður leikmaður þar á ferðinni og Logi Gunnarsson var líka góður með 18 stig sem og Magnús Þór Gunnarsson. Friðrik Stefánsson skoraði tíu og Hjörtur H. Einarsson sömuleiðis. Þetta hafa verið lykilmenn í liðinu að undanförnu og hinn hávaxni Fuad Memcic var líka drjúgur.
Þessi fyrsti leikur nágrannanna var mjög skemmtilegur og áhorfendur sem fyllu Toyota höllina fengið alvöru körfuboltaleik fyrir sinn snúð. Leikurinn minnti mann á gömlu góðu dagana. Hraður og harður leikur, mikið skorað og nett dómaratuð eins og gengur í svona stórleik. Valur Ingimundarson tuðaði aðeins meira en Siggi bróðir hans núna en kannski var það bara út af því að liðið hans var undir allan tímann. Síðast röflaði Siggi meira í dómurunum sem stóðu stig ágætlega þó Valur sé því örugglega ekki sammála.
Nú bíðum við bara eftir næsta leik sem verður í Ljónagryfjunni á þriðjudagskvöld því bæði lið eiga heiður skilið fyrir skemmtilega frammistöðu í kvöld.
Hér skorar hinn nýi leikmaður Keflavíkur, Jesse Pelot Rosa. Friðrik Stefánsson er til varnar.
Fyrir neðan má sjá Heath Sitton skora, Elvar Sigurjónsson er til varnar.
Hörður Vilhjálmsson átti góðan leik. Hér brunar hann upp að körfunni og skilur Magga „gun“ eftir á gólfinu.
VF-myndir/Páll Orri Pálsson.