Keflavík vann nágrannaslaginn í Grindavík
Keflvíkingar unnu annan leikinn í röð þegar þeir lögðu Grindvíkinga í Grindavík 89-97. Keflavík er á toppi deildarinnar með þremur öðrum liðum með tvo sigra eftir tvær umferðir. Þeir mæta Njarðvík í nágrannaslag á föstudag í næstu viku.
Heimamenn í Grindavík leiddu með 2 stigum eftir fyrsta leikhluta 26-24 en eftir það voru Keflvíkingar í bílstjórasætinu stærstan hluta leiksins. Heimamenn jöfnuðu 71-71 í fjórða leikhluta en þá settu Keflvíkingar í fimmta gír og innsigluðu sigurinn.
Keflvíkingar voru sterkari megnið af leilknum og unnu að lokum nokkuð sannfærandi sigur. Þeir eru með mikið breytt lið frá því í fyrra sem og nýjan þjálfara. Það var sérstakt að sjá um tíma í leiknum voru fjórir útlendingar og Hörður Axel Vilhjálmsson inn á hjá Keflavík. Lið sem hefur í gegnum tíðina framleitt frábæra leikmenn í gegnum tíðina. En hvað um það þá gæti liðið blandað sér í toppbaráttuna í vetur því blandan virðist nokkuð góð og útlendingarnir þrír sem komu til liðsins eru góðir.
Grindvíkingar söknuðu útlendings en þeir léku með alíslenskt lið annan leikinn í röð, eina liðið í deildinni. Þeir vonast til að Bandaríkjamaðurinn þeirra komi í liði í næstu umferð. Liðið vantar hæð en skotfimin er góð.
Dagur Kár Jónsson skoraði 20 stig fyrir UMFG og Dominykas Milka 26 stig fyrir Keflavík.
VF ræddi við þjálfara liðanna eftir leikinn.