Keflavík vann mikilvægan sigur á Fram
Keflavík tók á móti Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Fyrir leikinn munaði aðeins einu stigi á liðunum sem sitja í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar en góður 3:1 sigur heimamanna breikkar bilið í fjögur stig.
Keflvíkingar skoruðu strax á 3. mínútu þegar Framarar reyndu að hreinsa frá marki sínu en Frans Elvarsson komst fyrir boltann sem hrökk af honum í netið.
Heimamenn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og eftir því sem leið á hálfleikinn pressuðu þeir hærra. Það skilaði árangri því á 32. mínútu bætti Patrik Johannesen við öðru marki Keflvíkinga eftir sendingu frá Frans. Staðan 2:0 í hálfleik.
Framarar mættu mun ákveðnari til seinni hálfeiks og settu aukinn kraft í sóknina. Vörn Keflavíkur var samt vandanum vaxinn og virtist alltaf vanta herslumuninn á sóknir gestanna. Þeir komust þó nærri því þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af hálfleiknum, þá kom góð sending fyrir mark Keflavíkur og sóknarmaður skallaði framhjá Sindra Kristni í markinu en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Gestunum tókst þó að skora skömmu síðar (74') en Keflvíkingar svöruðu að bragði. Keflavík vann þá þrjár hornspyrnur í röð og í þriðju atrennu kom Nacho Heras boltanum í netið (78') og gulltryggði með því sigur heimamanna.
Keflvíkingar eru því með fjórtán stig í sjöunda sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KR sem hafa leikið einum leik fleiri en Keflavík.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.