Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík vann mikilvægan sigur á Fram
Keflavík er í góðum málum eftir sigurinn í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 3. júlí 2022 kl. 23:10

Keflavík vann mikilvægan sigur á Fram

Keflavík tók á móti Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Fyrir leikinn munaði aðeins einu stigi á liðunum sem sitja í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar en góður 3:1 sigur heimamanna breikkar bilið í fjögur stig.

Keflvíkingar skoruðu strax á 3. mínútu þegar Framarar reyndu að hreinsa frá marki sínu en Frans Elvarsson komst fyrir boltann sem hrökk af honum í netið.

Johannesen lætur vaða og boltinn lá í netinu.

Heimamenn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og eftir því sem leið á hálfleikinn pressuðu þeir hærra. Það skilaði árangri því á 32. mínútu bætti Patrik Johannesen við öðru marki Keflvíkinga eftir sendingu frá Frans. Staðan 2:0 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Framarar mættu mun ákveðnari til seinni hálfeiks og settu aukinn kraft í sóknina. Vörn Keflavíkur var samt vandanum vaxinn og virtist alltaf vanta herslumuninn á sóknir gestanna. Þeir komust þó nærri því þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af hálfleiknum, þá kom góð sending fyrir mark Keflavíkur og sóknarmaður skallaði framhjá Sindra Kristni í markinu en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Sindri kom engun vörnum við góðum skalla sóknarmanns Fram en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Gestunum tókst þó að skora skömmu síðar (74') en Keflvíkingar svöruðu að bragði. Keflavík vann þá þrjár hornspyrnur í röð og í þriðju atrennu kom Nacho Heras boltanum í netið (78') og gulltryggði með því sigur heimamanna.

Nacho Heras slökkti í vonum Framara með marki eftir hornspyrnu.

Keflvíkingar eru því með fjórtán stig í sjöunda sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KR sem hafa leikið einum leik fleiri en Keflavík.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - Fram (3:1) || Besta deild karla 3. júlí 2022