Keflavík vann ÍR í fyrsta leiknum
Keflvíkingar unnu ellefu stiga sigur á ÍR í Iceland Express deildinni í körfubolta í fyrsta leik tímabilsins á Suðurnesjum. Lokatölur urðu 88-77. Heimamennleiddu með þremur stigum í hálfleik 50-47.
Tríóið Gunnar Einarsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Hörður Axel Vilhjálmsson fóru fyrir Keflvíkingum og skoruðu sextíu af tæplega níutíu stigum liðsins. Keflvík er með sex manna lið sem flestir kannast við en útlendingurinn þeirra er meiddur. Í hópnum í kvöld voru fjórir nýliðar. Einn þeirra, Hafliði Brynjarsson, er sonur mestu körfuboltakonu Keflavíkur, Önnu Maríu Sveinsdóttur. Hún var þátttakandi í leiknum með því að sinna störfum á ritaraborði.
ÍR byrjaði vel í leiknum og var yfir í byrjun, mest 10 stig í upphafi fyrsta leikhluta en heimamenn með Gunnar Einarsson í fararbroddi sem skoraði tuttugu stig í fyrri hálfleik með þrusu skotnýtingu þar sem hann hitti úr 9 af 14 skotum sínum (71,4% nýting í tvistum og 57% í þristum) jöfnuðu rétt fyrir lok leikhlutans. Keflavík komst svo rétt yfir þegar flautað var til leikhlés, 50-47.
Í seinni hálfleik sigu heimamenn smám saman framúr Breiðhyltingum og unnu að lokum nokkuð örugglega 88-77 þó svo ÍR-ingum tækist að minnka muninn minnst í sex stig 85-79.
Gunnar Einarsson var rólegri í seinni hálfleik en bætti þó fjórum stigum við tuttugu úr fyrri hálfleik, Sigurður Þorsteins var með 19 og Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði sextán stig. Gunnar Stefáns var með 11, Þröstur Leó 6 og Jón N. Hafsteinsson fjögur stig.
Hjá ÍR var Kelly Biedler með 21 stig og Vilhjálmur Steinarsson 19 stig.
Fyrsti stóri leikurinn í körfunni verður í Njarðvík annað kvöld en þá fá heimamenn Grindavík í heimsókn.
Sigurður G. Þorsteinsson skorar gegn ÍR-ingum.
Gunnar Einarsson var góður í kvöld. Hér skorar hann í körfu ÍR.
Hörður Axel var öflugur að venju. Hér leggur hann boltann í körfuna.
Hafliði Brynjarsson, einn af nýliðum Keflvíkinga.