Keflavík vann Hópbílabikarinn
Keflavík vann góðan sigur á KR, 73-52, í úrslitaleik Hópbílabikars kvenna í körfuknattleik.
Keflavíkurstúlkur höfðu forystu allt frá byrjun leiks, en náðu ekki að ná afgerandi forystu fyrr en seint var liðið á leikinn, og má segja að KR liðið hafi verið inni í leiknum þar til í síðasta leikhluta þegar Keflavík sigldi loks framm úr og tryggði sér öruggan og verðskuldaðan sigur.
Keflavíkursóknin virkaði frekar óörugg framan af leik þar sem þær voru að missa boltann oftar en gengur og gerist á þeim bænum. Þá voru þær ekki að keyra upp hraðann, sem er eitt af þeirra sterkustu vopnum, en þökk sé misjafnri frammistöðu KR-inga kom það ekki að sök.
Erla Þorsteinsdóttir hitti persónulega úr fleiri 2ja stiga skotum en allt KR liðið til samans, en þær skutu og skutu fyrir utan þriggja stiga línuna án teljandi árangurs. Mest munaði þó um það að Hildur Sigurðardóttir, ein af bestu körfuknattleikskonum landsins, fann sig ekki í nokkrum skilningi þess orðs í leiknum. hún missti marks í ÖLLUM 13 skotum sínum utan af velli og skoraði bara 8 stig í leiknum. Annars hittu KR úr innan við fjórðungi skota sinna og gefur auga leið að slík frammistaða dugar ekki til gegn liði eins og Keflavík.
Keflavíkurliðið í dag hlýtur að teljast eitt allra besta lið í sögu kvennakörfunnar á Íslandi. Liðið hefur óviðjafnanlega breidd og margar góðar stelpur í hverri stöðu. Aldurssamsetning liðsins er líka vel til þess fallin að viðhalda styrk liðsins næstu árin þar sem ungar og efnilegar stúlkur eins og María Ben Erlingsdóttir geta lært mikið af reyndari leikmönnum eins og Önnu Maríu, Birnu og fleirum, auk þess sem kjölfestan í liðinu, fyrirliðinn Erla Þorsteins, á enn eftir fjölmörg ár í fremstu röð þrátt fyrir mikla reynslu. Liðið hefur engu að síður átt dapra leiki í vetur og tapað þremur deildarleikjum. Það er þó varla hægt að rekja til skorts á hæfuleikum, heldur einbeitningarleysis og skorts á baráttuanda. Þannig má segja að það eina sem gæti stöðvað Keflvíkinga í að ná sínum takmörkum, eru þær sjálfar. En ef stelpurnar mæta reiðubúnar til hvers leiks er ekkert lið hér á landi sem á möguleika gegn þeim.
Niðurstaðan er þó að lokum sú að Keflavík hampar Hópbílabikarnum og er fyrsta liðið til þess að verja titilinn, en þær unnu einnig í fyrra og hafa verið í úrslitaleiknum öll fjögur árin.
Erla Þorsteinsdóttir var stigahæst Keflvíkinga með 23 stig og Anna María Sveinsdóttir kom næst með 15 stig.
Katie Wolfe var stigahæst KR-inga og skoraði 23 stig og Tinna Sigmundsdóttir skoraði 10.