Keflavík vann Hauka - Suðurnesjaliðin hafa öll unnið fyrstu tvo
Keflvíkingar unnu annan leik sinn í Domino’s deildinni í körfubolta þegar þeir lögðu Hauka í TM-höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 109-104 eftir tvíframlengdan og spennandi leik.
Eftir venjulegan leiktíma var staðan 88-88. Haukar virtust svo ætla að klára dæmið í framlengingu en heimamenn gáfust ekki upp og Valur Orri Valsson jafnaði metin 99-99 þegar 9 sek. voru eftir. Keflvíkingar með Earl Brown í fararbroddi kláruðu svo þá rauðklæddu í annarri framlenginu og unnu hana örugglega.
Earl átti magnaðan leik hjá heimamönnum og skoraði 35 stig og tók 19 fráköst. Valur Orri og Reggie Dupree skoruðu 18 hvor og Magnús Þór Gunnarsson var með 12.
Hjá Haukum skoraði Stephen Michael 30 stig og tók 19 fráköst.
Suðurnesjaliðunum Keflavík, Njarðvík og Grindavík var spáð botnbaráttu í deildini í vetur í spá spekinganna við upphaf móts. Liðin hafa öll sigrað í tveimur fyrstu leikjunum og er ásamt Tindastóli einu taplausu liðin.
Hér er stutt myndskeið úr leiknum sem Hilmar Bragi tók.