Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík vann Fram í fyrsta leik sumarsins
Jóhann skorar glæsilegt sigurmark Keflavíkur. VF-myndir/pket.
Sunnudagur 5. maí 2019 kl. 16:50

Keflavík vann Fram í fyrsta leik sumarsins

Njarðvíkingar með góðan útisigur á Þrótti

Keflvíkingar unnu sinn fyrsta sigur á Nettóvellinum í Keflavík í langan tíma þegar þeir lögðu Fram í fyrstu umferð Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu. Lokatölur voru 2-1 en Fram leiddi 0-1 í hálfleik.

Helgi Guðjónsson kom Fram yfir á 7. mínútu og gestirnir voru mun betri í fyrri hálfleik. Heimamenn mættu miklu ákveðnari í síðari hálfleik og þurftu ekki hárblásararæðu frá Eysteini þjálfara. „Þeir sáu bara um þetta sjálfir. Ég þurfti ekki að mæta með einhverja skammarræðu. Við leystum vandræði á miðjunni því Framararnir voru sterkari þar í fyrri hálfleik og strákarnir sýndu sitt rétta andlit. Ég hefði verið ánægður með jafntefli en það var auðvitað sætt að innbyrða sigur,“ sagði Eysteinn Húni að leik loknum.

Keflvíkingar voru með yfirburði á löngum köflum í síðari hálfleik og skoruðu tvö mörk auk þess að eiga hörkuskot í þverslá og mörg marktækifæri. Dagur Ingi Valsson skoraði flott mark með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni.  Jóhann Þór Arnarson, sem hafði komið inn á sem varamaður  skoraði sigurmarkið á 87. mínútu eftir skemmtilega fyrirgjöf frá hægri vængnum frá Gunnólfi B. Guðlaugssyni.
Keflavíkurliðið er mjög ungt en það var virkilega gaman að sjá liðið í síðari hálfleik, mikil barátta um alla bolta og hreyfing á liðinu. Liðið náði að byggja upp margar góðar sóknir sem enduðu í góðum marktækifærum.
Eysteinn sagði að liðið yrði að vera niðri á jörðinni þrátt fyrir þennan sigur því næsti leikur yrði erfiður eins og flestir í deildinni í sumar. „Við erum með hófstilltar væntingar,“ sagði hann en Eysteinn fer nánar yfir það í viðtalinu hér með fréttinni.

Njarðvíkingar unnu einnig flottan sigur á útivelli 2-3 gegn Þrótti Reykjavík. Brynjar Freyr Garðarsson, Stefán Birgir Jóhannesson og Bergþór Ingi Smárason skoruðu mörk Njarðvíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagur Ingi Valsson skoraði flott mark með skalla og jafnaði fyrir heimamenn.

Gunnólfur Guðlaugsson gaf góða fyrirgjöf til Jóhanns sem skoraði sigurmarkið.