Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík valtaði yfir vængbrotna Hauka
Miðvikudagur 27. febrúar 2008 kl. 23:21

Keflavík valtaði yfir vængbrotna Hauka

Íslandsmeistarar Hauka voru ekki mikil fyrirstaða í Sláturhúsinu í kvöld þegar Keflavík skellti Hafnarfjarðarkonum 106-58 í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Með sigri kvöldsins er Keflavík komið með aðra hönd á deildarmeistaratitilinn og þurfa Keflvíkingar nú aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér efsta sætið.

 

TaKesha Watson lét að vanda mikið fyrir sér fara hjá Keflavík og gerði 34 stig í kvöld, stal 9 boltum, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Næst henni í liði Keflavíkur var Birna Valgarðsdóttir með 22 stig en Haukar léku í kvöld án Kieru Hardy sem á dögunum hlaut heilahristing og samkvæmt læknisráði á Kiera að taka sér frí og því ákváðu Haukar að leita að eftirmanni hennar.

 

Kiera lék 22 leiki fyrir Hauka og skoraði í þeim 22,6 stig, tók 5,5 fráköst og gaf 5,8 stoðsendingar. Þá var Ragna Margrét Brynjarsdóttir einnig fjarverandi hjá Haukum sökum meiðsla.

 

Stigahæst í liði Hauka í kvöld var Telma B. Fjalarsdóttir með 14 stig og 17 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 11 stig.

 

Haukar áttu aldrei möguleika í leiknum og fljótt varð ljóst í hvað stefndi þar sem Keflavík leiddi 29-14 eftir fyrsta leikhluta og var staðan í hálfleik 56-30 og svo lokatölur 106-58 eins og fyrr greinir.

 

Keflavík er á toppi deildarinnar með 36 stig en KR getur jafnað Keflavík að stigum með sigri í næstu tveimur umferðum svo fremi Keflavík tapi í næstu umferð gegn KR og svo gegn Hamri í síðustu umferðinni.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Mynd/ Þorgils Jónsson, [email protected]Pálína Gunnlaugsdóttir lék í 20 mínútur gegn sínum gömlu félögum í kvöld en henni tókst ekki að skora í leiknum þó liðsfélagar hennar í Keflavíkurliðinu hefðu verið iðnir við kolann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024