Keflavík úr leik í VÍS-bikar karla
Keflvíkingar léku gegn Stjörnunni í gær í undanúrslitum VÍS-bikars karla í körfuknattleik. Eftir þræljafnan leik og framlengingu stóðu Stjörnumenn uppi sem sigurvegarar og munaði aðeins tveimur stigum á liðunum (95:93). Keflvíkingar eru því úr leik en framundan er úrslitakeppni Subway-deildarinnar.
Stjarnan - Keflavík 95:93
(19:23, 22:13, 19:26, 22:20, 13:11)
Allur leikurinn spilaðist mjög jafnt og var mesti munur aldrei meiri en níu stig. Keflavík byrjaði aðeins betur og hafði fjögurra stiga forystu (19:23) að fyrsta leikhluta loknum en Stjarnan leiddi með fimm stigum í hálfleik (41:36).
Áfram héldu liðin að skiptast á forystunni og Keflavík hafði tveggja stiga forskot (60:62) þegar fjórði leikhluti hófst. Liðin voru algerlega mjög samstíga og hafði ýmist Keflavík eða Stjarnan eins til tveggja stiga forskot. Í lokin vantaði Keflavík þrjú stig til að jafna (82:79) og þau stig komu þegar Jaka Brodnik smellti niður þristi þegar rétt um tíu sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Keflavík tók svo foystu í upphafi framlengingar og náðu fimm stiga forskoti (85:90) en þá náðu Stjörnumenn góðum kafla og kláruðu leikinn á æsispennandi lokamínútum. Lokatölur 95:93 og Keflavík kemst því miður ekki í úrslitaleikinn í ár.
Frammistaða Keflvíkinga: Mustapha Jahhad Heron 26/8 fráköst, Darius Tarvydas 17/5 fráköst, Valur Orri Valsson 16/6 fráköst, Dominykas Milka 14/13 fráköst, Jaka Brodnik 11/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 9/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ágúst Orrason 0, Halldór Garðar Hermannsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Magnús Pétursson 0, Nikola Orelj 0.