Keflavík tyllir sér á toppinn
Óverjandi þrumufleygur
Keflvíkingar tóku á móti Vestra í Lengjudeild karla í gær. Leikurinn fór ekki amalega af stað en á 5. mínútu átti Kian Williams sannkallaðan þrumufleyg langt fyrir utan teig, sláin inn. Stórglæsilegt mark.
Leikurinn fór fjörlega af stað og tveimur mínútum eftir að hafa lent undir fékk Vestri sannkallað dauðafæri þegar fyrirgjöf barst fyrir mark Keflvíkinga á Vestramann sem var einn og óvaldaður á fjærstöng en skot hans fór rétt framhjá markinu.
Fyrri hálfleikur var ágætur hjá báðum liðum sem skiptust á að sækja án þess þó að skapa sér álitleg færi, eftir því sem leið á hálfleikinn tók Vestri þó að sækja ívið meira en náði þó ekki að koma boltanum í netið. Staðan því 1:0 í hálfleik, Keflavík í vil.
Jöfnunarmarkið kveikti í Keflvíkingum sem slökktu á Vestra
Vestramenn mættu ákveðnir til seinni hálfleiks og settu pressu á Keflvíkinga, á 57. mínútu fékk Vestri horn og upp úr því barst boltinn á sóknarmann þeirra sem afgreiddi hann í markið, 1:1.
Keflvíkingar tóku miðju, léku upp vinstri kantinn, sendu fyrir markið þar sem Joey Gibbs setti hann framhjá markverði Vestra og Keflavík því aftur komið yfir á innan við mínútu. Vestramenn voru enn að fagna og vissu varla hvað skall á þeim þegar Joey skoraði.
Það má segja að neistinn sem kveikti í Keflvíkingum hafi alveg slökkt á Vestramönnum því á 59. mínútu kom Keflavík upp hægri kantinn og Sindri Þór Guðmundsson gaf góða fyrirgjöf inn fyrir vörn Vestra þar sem Kian stakk sér fram og skallaði í markið, 3:1 fyrir Keflavík.
Áfram hélt Keflavík að sækja og hafa stjórn á leiknum. Vestraliðið var í hálfgerðu áfalli eftir að fá þessi mörk á sig og Keflvíkingar voru með leikinn í höndunum. Á 74. mínútu mætti Joey Gibbs á nærstöng og skoraði fjórða mark Keflvíkinga sem reyndist lokamark leiksins. Úrslit 4:1 og Keflavík tyllir sér á topp Lengjudeildarinnar um sinn með sautján stig, jafn mörg og Fram sem er í öðru sæti. Bæði Leiknir Reykjavík og ÍBV eiga leik til góða og geta komist upp fyrir Keflavík með sigrum.
Keflavík með bestu markatöluna
Sóknarleikur Keflvíkinga hefur verið góður í sumar og ekkert lið hefur skorað fleiri mörk en þeir, 25 mörk í átta umferðum. Svipaða sögu er að segja af varnaleik liðsins en Keflavík hefur aðeins fengið tíu mörk á sig í deildinni í sumar, aðeins Fram (hefur fengið átta mörk á sig), ÍBV (hefur fengið níu mörk á sig) og Leiknir Reykjavík (hefur fengið átta mörk á sig) hafa fengið færri mörk á sig og af þeim eiga ÍBV og Leiknir eftir að leika í áttundu umferð.
Joey Gibbs hefur verið á skotskónum í sumar og er enn markahæstur í deildinni með átta mörk. Joey er vinnusamur leikmaður og hefur smollið vel inn í leik Keflavíkurliðsins eins og sést best á tölfræðinni.