Keflavík þarf áþreifanlega að bæta sóknarleikinn
Staðan er farin að líta illa út hjá Keflavík í Bestu deild karla í knattspyrnu. Keflavík tapaði í gær fyrir KR með tveimur mörkum gegn engu og situr í neðsta sæti deildarinnar með einungis átta stig eftir þrettán umferðir.
Keflavík átti erfitt uppdráttar í Vesturbænum í gær og komust aldrei almennilega í takt við leikinn. Frans Elvarsson virtist þó vera að sleppa í gegnum vörn KR á 24. mínútu eftir góða sendingu frá Edon Osmani en var dæmdur rangstæður, mjög vafasamur dómur og sennilega rangur en það er erfitt að spá hverju mark hefði mögulega breytt á þeim tímapunkti.
Þótt KR-ingar hafi fengið nokkur ágætis færi í fyrri hálfleik þá náðu þeir ekki forystu fyrr en á 43. mínútu þegar þeir léku upp að endamörkum og áttu hættulega sendingu fyrir mark Keflavíkur. Þar skallaði Atli Sigurjónsson boltann í netið af stuttu færi. Keflavík hafði sloppið með skrekkinn fram að markinu en staðan var 1:0 í hálfleik. Markið má sjá í spilaranum neðst á síðunni.
Í seinni hálfleik tvöfaldaði Ægir Jarl Jónasson forystu KR (77') með marki eftir hornspyrnu og því urðu lokatölur leiksins 2:0 fyrir KR.
Vörn Keflvíkinga hefur tekið miklum framförum eftir því sem líður á tímabilið en markaþurrð liðsins er verulegt áhyggjuefni. Keflavík hefur aðeins skorað átta mörk í þrettán leikjum og þar skilur á milli en Keflavík hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu og það var í fyrstu umferð, síðan hafa tólf leikir verið spilaðir án sigurs.
Það er því nokkuð ljóst að stjórn knattspyrnudeildarinnar og Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, þjálfara Keflvíkinga, býður það vandasama verkefni, þegar félagsskiptaglugginn opnast þann 18. júlí, að finna sterka leikmenn til að skerpa á sóknarleiknum. Hvort það dugi er svo annað mál því gengi liðsins er augljóslega farið að hafa áhrif á leikmenn sem virðast vera orðnir rúnir sjálfstrausti og farnir að hengja haus.