Keflavík tapar í Frakklandi
Keflavík tapaði 107-91 gegn franska liðinu Toulon í bikarkeppni Evrópu í körfuknattleik í kvöld en leikið var í Frakklandi. Heimamenn komust í 15-4 í upphafi leiks og þann mun náði Keflavík aldrei að vinna upp. Staðan í hálfleik var 55-47.
Skyttur Keflavíkur náðu sér ekki á strik í kvöld, þannig að þriggja stiga nýtingin var einungis 9 af 28. Falur Harðarson náði sér því miður ekki á strik í sókninni og missti marks í öllum 7 þriggja stiga skotum sínum. Að sama skapi hitti Nick Bradford illa fyrir innan þriggja stiga línuna, einungis 2 af 9, og missti boltann líka oft.
Hrannar Hólm, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, sagði að eftir að liðið lenti undir í byrjun leiks hafi leikurinn verið jafn en þeir náðu aldrei að brúa bilið. Undir lokin hafi Keflvíkingar verið að taka sénsa og misstu því Frakkana enn lengra fram úr sér, þannig að 16 stiga tap er full stórt miðað við gang leiksins.
„Við vorum að tapa boltanum of oft og svo voru menn ekki að hitta vel, sem er út af því að við vorum ekki að fá nógu góð færi. Við vorum allan leikinn að bíða eftir því að detta í gang en það bara gerðist ekki, en þetta eru hreint ekki slæm úrslit því heimavöllurinn á að skila um 10-15 stigum í viðbót, þannig að það er aldrei að vita hvað gerist á okkar heimavelli. Þó Toulon sé miklu stærri klúbbur og eyði á einu ári því sem við getum eytt á fimmtán árum er munurinn ekki meiri en þetta.“ Hrannar bætti einnig við að stemmningin hafi verið góð í höllinni og áhorfendur hafi ekki látið sig vanta. Að loknum tveimur umferðum eru öll liðin í riðlinum jöfn með einn sigur og eitt tap.
Næstu leikir Keflavíkur í Evrópukeppninni eru heimaleikir gegn Madeira og Toulon sem fara fram 26. nóv og 10. desember. Möguleikar Keflavíkur á að komast upp úr riðlinum munu án efa ráðast í þessum leikjum þannig að skorað er á stuðningsmenn Keflavíkur og íslensks körfubolta að taka þessi kvöld frá á dagatalinu og mæta galvaska til leiks og styðja sína menn.
Stigahæstir Keflvíkinga voru: Derrick Allen með 29 stig og 11 fráköst, Magnús Gunnarsson með 17 stig og 6 stoðs. og Nick Bradford sem skoraði 15 stig.
Hjá Toulon var Legname stigahæstur með 19 stig, en á hæla hans komu Asceric með 18 stig og Gugino með 16.
Hér má finna tölfræði úr leiknum