Keflavík tapaði og er 0-2 undir gegn Val
Keflavíkurstúlkur eru komnar 0-2 undir í úrslitaviðureign gegn Valskonum í Domino´s deild kvenna í körfubolta. Þær töpuðu öðrum leiknum í Blue höllinni í Keflavík 96-100 en tap Keflavíkur var sárt því þær voru betri aðilinn lang stærstan hluta af leiknum.
Lok þriðja leikhluta og stærsti hluti fjórða leikhluti voru dýrir fyrir Keflavík því þær höfðu leikið vel og voru mun betri fram að þeim tíma en misstu taktinn á þessum tíma þegar lykilleikmenn voru hvíldir of lengi. Slíku var ekki að fagna hjá Valskonum og þær komust inn í leikinn og náðu forystu sem þær höfðu ekki haft nema í blábyrjun. Á meðan Keflavík hvíldi sína bestu leikmenn gengu Valskonur á lagið og náðu 11 stiga forystu sem Keflavík náði þó að minnka í tvö stig þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Valskonur voru sterkari á lokakaflanum og kláruðu „ljótan“ sigur eins og þjálfari Vals sagði í viðtali við Stöð 2 sport að leik loknum. Mjög sárt tap hjá Keflavík sem hefði nauðsynlega þurft sigur í þessum leik gegn sterku liði Vals. Það verður erfitt verkefni fyrir Keflavík að mæta Valskonum í þriðja leiknum því þær rauðu hafa aldrei unnið Íslandsmeistaratitilinn en Keflavík hefur sextán sinnum hampað titlinum.
Sara Rún Hinriksdóttir (23/7 fráköst) og Brittany Dinkins sem skoraði 39 stig og 8 fráköst, áttu báðar mjög góðan leik en það dugði ekki að þessu sinni því tveir sterkustu leikmenn Vals, Helena (35 stig/10 fráköst) og Heather Butler 27/6 fráköst áttu líka mjög góðan leik.
Keflavík-Valur 96-100 (25-27, 28-23, 23-19, 20-31)
Keflavík: Brittanny Dinkins 39/8 fráköst/7 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 12, Erna Hákonardóttir 8, Þóranna Kika Hodge-Carr 8, Bryndís Guðmundsdóttir 4/6 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, Eydís Eva Þórisdóttir 0, María Jónsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Irena Sól Jónsdóttir 0, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 0.
Valur: Helena Sverrisdóttir 35/10 fráköst/8 stoðsendingar, Heather Butler 27/6 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 12/5 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 11, Simona Podesvova 6/15 fráköst, Bergþóra Holton Tómasdóttir 6, Dagbjört Samúelsdóttir 3, Elísabet Thelma 0, Ásta Júlía Grímsdóttir 0, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 0, Kristín María Matthíasdóttir 0, Anita Rún Árnadóttir 0.