Keflavík tapaði leik tvö eftir framlengingu
Keflavík er nú komið í slæma stöðu eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum í úrslitaeinvígi við Val um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik. Liðin mættust í leik tvö í gær og það var Valur sem vann leikinn með sjö stigum (77:70) eftir framlengingu. Staðan orðin 2:0 fyrir Val en fyrra liðið til að vinna þrjá leiki hampar bikarnum.
Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var óánægður með sóknarleik liðsins í gær en varnarleikur þess var mjög góður enda gerðu Valskonur ekki nema 62 stig í venjulegum leiktíma. Viðtal sem Karfan.is tók við Hörð eftir leik má sjá í spilaranum að neðan.
Birna Valgerður Benónýsdótttir fór fyrir Keflavík og skoraði hátt í helming stiga liðsins. Þá voru þær Daniela Wallen og Karina Konstantina að skila samtals 29 stigum en aðrir leikmenn Keflavíkur voru ekki svipur hjá sjón og þurfa að leggja meira til málanna í næstu leikjum ef þær ætla að koma með Íslandsmeistaratitilinn til Keflavíkur.
Valur - Keflavík 77:70
(16:12, 22:15, 15:15, 9:20, 15:8)
Keflavík: Birna Valgerður Benónýsdóttir 27/7 fráköst, Daniela Wallen Morillo 17/17 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 12/13 fráköst/5 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4/7 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 3, Agnes María Svansdóttir 3, Katla Rún Garðarsdóttir 2, Anna Lára Vignisdóttir 2, Gígja Guðjónsdóttir 0, Ólöf Rún Óladóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0.