Keflavík tapaði í uppbótartíma
Keflavík komst yfir gegn HK í fyrri hálfleik í Bestu deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi en fengu svo dæmda á sig vítaspyrnu í seinni hálfleik sem jafnaði leikinn.HK tryggði sér að lokkum sigurinn með tveimur mörkum í uppbótartíma.
Fyrri hálfleikurinn í Kórnum var ekki rismikill en rétt áður en blásið var til hálfleiks varð misskilningur í vörn HK sem Sindri Þór Guðmundsson nýtti sér, hann náði boltanum og skoraði í autt markið (45'). Mathias Rosenorn tók markspyrnu sem Stefan Ljubicic fór í skallaeinvígi og fleytti boltanum áfram inn fyrir vörn HK þar sem Sindri náði honum. Eftir skallaeinvígið lá Stefan óvigur eftir og þurfti að fara af velli en hann hefur verið frá vegna höfuðmeiðsla í sumar.
Keflvíkingar fóru því með forystu inn í seinni hálfleikinn en HK jafnaði snemma í seinni hálfleik þegar dómarinn dæmdi vítaspyrnu þegar leikmaður HK féll í teignum hjá Keflavík (51').
Bæði lið áttu sín færi í seinni hálfleik en það var vel liðið á uppbótartímann þegar HK sótti hratt fram, skoraði og komst yfir (90'+4). Keflavík fékk hornspyrnu í blálokin og setti allt sitt lið í sóknina, þar á meðal Rosenorn, markvörð Keflavíkur. HK hreinsaði frá, brunaði fram og eftirleikurinn var auðveldur. Þeir gulltryggðu sigurinn með því að skora í autt markið (90'+6).
Það er eins og álög hvíli á Keflvíkingum í sumar, líka hægt að segja að falldraugurinn loði við þá, en enn og aftur tapa Keflvíkingar stigum í blálokin. Staðan er slæm, liðið í neðsta sæti deildarinnar og hefur ekki unnið leik frá því í fyrstu umferð. Örlagadísirnar hafa ekki verið í liði með Keflavík í sumar.